154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hvernig á varnargarðurinn að vera og hvernig á að styrkja grunninn? Nú er ég ekki verkfræðingur en verkfræðistofan Verkís hefur haft það verkefni með höndum síðustu vikur, í nokkuð langan tíma, að hanna þetta mannvirki. Þetta er gríðarstórt mannvirki og það mun sjást um langan veg á Reykjanesi. Hugmyndin er að ryðja land, að ryðja upp hrauni, en einnig að keyra efni til viðbótar við það. Garðurinn liggur eins og raun ber vitni og þingmenn hafa væntanlega séð myndir af legu hans, vegna þess að þar er farið í hæstu punkta landslagsins. Hugmyndin er að byrja með 2–3 metra háan garð og síðan væri hægt að bæta við hann hlémegin ef til goss kæmi. Undirstöður þessa garðs eru svona 30–50 metrar á breidd en raskað svæði verður allt að 100 metra lína. Það er mjög breitt þannig að grunnur garðsins verður um 20–30 metrar, fer eftir landslaginu, og við væntum þess að hann virki. Það er ekki er gert ráð fyrir því að garðurinn sé járnbentur. Ég tek undir orð þingmanns að það virðist virka vel og hafa gefist vel í Vestmannaeyjagosinu að sprauta vatni til að tefja hraunflæðið. Það er verið að skoða það og eins hvar dælur eru til verksins og hvernig við gætum fengið þær til landsins hratt og örugglega.