154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist við öll vera á svipuðum slóðum í dag; þakklát fyrir að geta átt samtal til að ræða stöðuna og þær aðgerðir sem eru mjög augljóslega í kortunum en svo kannski líka næstu skref. Ég tek undir orð ræðumanns hér á undan, um mikilvægi þess að þessu samtali verði fram haldið hér á Alþingi og aðgerðir verði allar uppi á borðum og býst svo sem ekki við öðru en að þannig verði það.

Við erum að horfa á húsnæðisvanda heils sveitarfélags, 4.000 manns sem eru í óvissu um húsnæði, sem eru í óvissu um afkomu, sem eru í óvissu um öryggi sitt, fullkomin óvissa um atvinnustarfsemi. Við erum að horfa á mikið og útbreitt og alvarlegt eignatjón, mikla óvissu og svo auðvitað tilfinningalegt tjón.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi mikilvægi þess að efla grunnskipulag almannavarna, talaði um allsherjarendurskoðun í þeim efnum og mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða. Og þær skipta jú sköpum. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvaða vinna hvað þetta varðar hafi átt sér stað í ráðuneytinu fyrir þessa allra síðustu daga í ljósi mikilvægis þess að búa í haginn og mikilvægis þess að efla grunnskipulag. Eldsumbrotin hófust fyrst fyrir um tveimur árum síðan. Jarðfræðingar voru sammála um að þá væri að hefjast lengra tímabil eldsumbrota. Grunnspurningin er: Hvaða vinna hefur átt sér stað í ráðuneytinu á þessu tveggja ára tímabili með það að leiðarljósi að búa í haginn?