154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin því að eins og hún nefnir hér sjálf í andsvörunum þá er þetta viðvarandi almannavarnaástand sem hefur staðið núna um nokkurra ára skeið. Ráðherra nefnir jafnframt að lög um þennan málaflokk hafi síðast sætt heildarrýni og heildarendurskoðun árið 2008. Ég er auðvitað bara að spyrja til að átta mig á því þegar þessi verkefni, væntanleg frumvörp, koma hingað inn í þingið, hversu nálægt það er í tíma. Hófst öll þessi vinna fyrst í sumar eða hefur hún staðið um lengri tíma, upp á það að þingheimur geti áttað sig á því hvers er að vænta varðandi frumvarpavinnu fyrir Alþingi? Erum við að fá þessi frumvörp inn núna fyrir jól? Erum við að fá þau inn á allra næstu dögum? Allt skiptir þetta máli um þær aðgerðir sem við erum að horfa fram á og ég ítreka upphafsorð mín (Forseti hringir.) um að við stöndum öll saman í þessu. Alþingi vill geta unnið þessi mál vel. Þá skiptir máli (Forseti hringir.) að við sjáum fram á það hvers er að vænta um verkefni hingað inn á Alþingi.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á að hv. þingmenn virði ræðutíma sem er takmarkaður.)