154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera orð Huldu Jóhannsdóttur, leikskólastjóra í Grindavík, að mínum. Hún lýsir stöðu og tilfinningum Grindvíkinga á Facebook-síðu sinni og segir m.a., með leyfi forseta:

„Við erum í miðjum atburðinum. Við erum í áfalli. Við búum við gríðarlega óvissu. Við erum kannski búin að missa heimilin okkar. Við erum dreifð um landið. Við vitum mörg hver ekki hvar við munum dvelja á morgun. Við grátum helling. Við gleymum að borða. Við villumst í umferðinni. Við sofum lítið eða ekkert. Við erum mörg hver að hugsa um foreldra okkar. Við hugsum ekki skýrt.“

Hulda kallar eftir samverustað eða stöðum þar sem fólk getur hist með börnin sín, talað um reynsluna og verið saman, stað þar sem fólk getur hjálpast að við að búa til rútínu fyrir barnafólk. Góðu fréttirnar eru þó að í dag verður opnaður staður fyrir Grindvíkinga í Tollhúsinu í Reykjavík.

Hulda heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það þarf að bjóða fólki upp á faglega aðstoð til að vinna úr áfallinu. Og síðast en ekki síst það þarf að segja okkur: Að það verði allt í lagi með afkomu okkar. Að okkur verði tryggður dvalarstaður núna og í framtíðinni. Að við fáum allt sem við höfum byggt upp bætt. Það þarf að byggja varnargarð utan um okkur fólkið í Grindavík.“

Herra forseti. Þingmenn og ráðherrar þurfa að hlusta á Grindvíkinga og gefa þeim góðar upplýsingar um stöðuna, eins og mögulegt er í óvissuástandi, líkt og Hulda kallar eftir og ráðast í aðgerðir til að létta óþarfa áhyggjum af Grindvíkingum.