154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að tala um tilfinningar. Það er mikilvægt að tala um tilfinningar þegar áföll dynja yfir. Við erum enn þá í miðju áfalli, sér í lagi Grindvíkingar, en þetta snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti. Það sem gerir tilfinningalega úrvinnslu svo flókna í þessu er óvissan. Það eru til fræðileg módel um stig sorgarinnar, hvaða tilfinningar koma upp og í hvaða röð þegar við verðum fyrir missi, en þau ná aldrei almennilega yfir veruleikann og þau ná sérstaklega illa yfir ástand þar sem við vitum í raun ekki nákvæmlega hver missirinn er. Jú, Grindvíkingar vita að þau hafa misst heimili sitt, griðastaðinn sinn, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason, kollegi okkar og Grindvíkingur, orðaði það svo vel í viðtali á Bylgjunni í morgun. Griðastaðurinn er farinn en það er óvíst hversu lengi. Mun koma eldgos? Hvert mun það flæða? Mun fólk geta snúið til baka og byggt upp bæinn aftur? Allt er þetta í lausu lofti. Það er því eðlilegt að yfir fólk flæði margar og misvísandi tilfinningar og jafnvel að tilfinningarnar séu í bili alveg dofnar og aftengdar.

Virðulegi forseti. Hér er það skylda stjórnvalda að stíga inn með öllum mögulegum hætti til að draga úr óvissu og koma Grindvíkingum í grið, bæði efnislega og tilfinningalega. Húsaskjól, pláss í skólum, fjárhagslegur stuðningur og áfallahjálp, þetta og fleira eru atriði sem ég myndi vilja sjá í aðgerðapakka, eða jafnvel aðgerðapökkum sem ég vona að séu í vinnslu.