154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[16:10]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að hefja þessa umræðu um málefni fatlaðs fólks og öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í dag. Þessi umræða er mikilvæg og það er hlutverk okkar sem hér erum að halda utan um umræðuna um þjónustu við borgara þessa litla ríkis okkar.

Fatlað fólk hefur löngum þurft að búa við mismunun þegar kemur að aðgengi að því sem þau sem eru ófötluð taka oft sem sjálfsögðum hlut. Mig langar hér í dag að nefna eitt svið sérstaklega sem mér finnst rétt að minna á. Þetta er aðgengi fatlaðs fólks að þátttöku í menningu og listsköpun. Í fyrravetur fór af stað umræða um fatlað fólk í sviðslistum í kjölfar sýningar í Þjóðleikhúsinu þar sem ófatlaður leikari var í hlutverki fatlaðs manns. Sú umræða náði sem betur fer í gegn og hefur leitt til þess að aukin meðvitund er um þetta mál á þeim stöðum sem máli skipta. En það sem er ekki breytt er aðgengi fatlaðs fólks að þeim auðlindum sem þau sem vilja starfa við sviðslistir þurfa að búa við. Þar ber sérstaklega að nefna aðgengi að listnámi. Eins og staðan er í dag er nánast ómögulegt fyrir fatlaða einstaklinga að fá inngöngu í sviðslistanám hér á landi. Þar er ekki aðeins um að ræða skort á fjármagni heldur beinlínis hvernig valið er inn í slíkt nám. Það er mikilvægt að huga að inngildingu á þessu sviði því að mikilvægi fyrirmynda verður seint ofmetið. Ef fatlað fólk fær aldrei að sjá neinar fyrirmyndir á þessu sviði, nema þar sem ófatlaðir eru að leika fatlaða, þá erum við ekki að bjóða upp á það samfélag sem við viljum búa við á þessu landi þar sem allir eru jafn verðmætir og njóta tækifæra til innihaldsríks lífs, burt séð frá líkamlegu ástandi.

Ég vil hvetja þingheim til að beita sér í þessum efnum og vinna að því að opna fyrir námsmöguleika fatlaðs fólks á þessu sviði.