154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru og eru undirliggjandi forsendur varðandi fjárlögin og það hefur verið vinna í gangi í ferðamálaráðuneyti um framtíðarfyrirkomulag um gjaldtöku, hvort sem það er mögulega komugjald eða einhvers konar innviða- eða náttúrugjald. Sú vinna er í gangi. Það var skýrt að gistináttaskatturinn yrði tekinn aftur upp og það var unnið í samráði við fagráðuneytið, sem er í þessari vinnu síðan heilt yfir til framtíðar, hvernig það væri best gert og niðurstaðan varð þessi.

Það er alveg rétt að fjárhæðin nær ekki að öllu leyti upp í þær forsendur sem þar eru en þetta var sú útfærsla sem lögð var áhersla á að yrði nú. Þessi breyting, að breikka skattstofninn með tilliti til þess að taka skemmtiferðaskipin inn, það hefur verið skýrt og kemur fram í stjórnarsáttmála sömuleiðis, og það sama með að breyta úr einingu og á hvern haus en þó 18 ára og eldri. (Forseti hringir.) Síðan er það framtíðarvinna að finna út úr frekari gjaldtöku og sú vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu.