154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst til að svara síðustu spurningu varðandi börn þá er ekki gert ráð fyrir að börn, einstaklingar undir 18 ára aldri, greiði gistináttaskatt. Hins vegar erum við hér með 300 kr. tölu, sem er auðvitað sama krónutala og við vorum með fyrir Covid, sem væri auðvitað hærri ef við hefðum uppfært hana. En hins vegar erum við síðan að fara úr fyrirkomulaginu „á hverja einingu“ yfir í „á hvern haus“ eða hverja manneskju 18 ára og eldri. Það er sú aðferð sem alla jafna er viðhöfð í Evrópu þannig að við erum þá að færa okkur nær því. En annars staðar er yfirleitt prósentutenging, þ.e. það fer eftir verði per nótt á hótelum, sem er ekki hér, en hún miðar líka alla jafna við stjörnugjöf sem við erum ekki með hér. En það er auðvitað eitt af því sem hefur komið upp, hvort eðlilegra væri að þar sem þú greiðir miklu hærra verð fyrir hverja nótt þá værirðu sömuleiðis að borga fleiri krónur í gistináttaskatt en ef þú værir á tjaldsvæði, farfuglaheimili eða hóteli. Þetta er sú útfærsla sem er hér og svo er spurning að hvaða marki hún kann að breytast í vinnunni fram undan og þessari stefnumótunarvinnu varðandi gjaldtöku.