154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er um mjög áhugaverð lög að ræða og mig langar að ræða þau sérstaklega varðandi gistináttaskattinn sem er hér settur aftur á. Lög um gistináttaskatt voru sett 2011 þar sem segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Jafnframt að afla tekna til þess að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins.“

Þessi gistináttaskattur er 300 kr. og ótrúlega lágur að mínu mati. Hér er um nýja atvinnugrein að ræða og mér finnst athyglisvert að sveitarfélögum er ekki ætlaður hluti af þessum gistináttaskatti með nokkrum hætti. Það hafa tvær atvinnugreinar rutt sér til rúms á síðustu árum: ferðaþjónusta og svo fiskeldi á landsbyggðinni, sérstaklega á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sveitarfélögum er ekki markaður sérstakur tekjustofn hvað þær varðar. Þau fá ekki aðstöðugjöld í þessum atvinnugreinum. T.d. í laxeldinu fá þau ekki beint aðstöðugjald vegna kvíanna og þeirrar starfsemi nema starfsemin sé á landi. Þau þurfa að sækja um í svokallaðan fiskeldissjóð þar sem eru þær tekjur sem ríkið fær af fiskeldisgjaldi.

Af hverju tek ég þetta upp varðandi sveitarfélögin? Það er út af fjárhagsstöðu þeirra, sem er mjög bágborin og þau eru misjafnlega stödd fjárhagslega. Ég tel að það væri eðlilegt að skoða það a.m.k. að sveitarfélögin fengju hluta af þessu gjaldi. Og af hverju er það? Jú, það myndi skapa hvatningu fyrir sveitarfélögin að skapa aðstöðu fyrir ferðamenn með uppbyggingu gististaða ef þau fengju hluta af gistináttaskattinum. Það væri tengt markmiðum laganna, með leyfi forseta, „að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða …“ Ef sveitarfélögin fengju hluta af gistináttaskattinum væri það hvatning til sveitarfélaganna að koma að uppbyggingu þessarar nýju atvinnugreinar. Sú hvatning væri til að byggja upp innviði fyrir ferðamenn. Það er mjög mikilvægt að hún sé fyrir hendi. Ég tel að sveitarfélögin mættu þá bera meira úr býtum hvað þessa miklu atvinnugrein varðar fyrir íslenskt samfélag.

Ferðaþjónustan er með lægra skattþrep en aðrar atvinnugreinar. Að vissu leyti eru rök fyrir því, sem eru þau að þetta er eins konar útflutningur. Erlendir ferðamenn koma hingað og það réttlætir það — ég er ekki að segja að það ætti að vera lægra skattþrep fyrir ferðamannaiðnaðinn, en hann hefur lægra skattþrep af því að þetta er eins konar útflutningur og ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. En ef við skoðum skattinn þá er verið að leggja hann í fyrsta lagi á gististaði sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, í öðru lagi á tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi og í þriðja lagi á skemmtiferðaskipin. Ég skil það þannig, t.d. varðandi tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi, að það sé fyrst og fremst starfsemi sem við getum ekki flokkað undir útflutning. Það eru ekki margir erlendir ferðamenn þar. Mér finnst ekki nægileg rök fyrir hendi hvað það varðar að setja þennan flokk með tjaldstæðum í sama gjaldflokk og hótel og skemmtiferðaskip. Það eru fyrst og fremst Íslendingar sem nota þessi tjaldstæði. Ég er ekki að segja að það sé bara þess vegna sem eigi ekki að gera það en það er líka vegna þess að gistiaðstaðan sem verið er að bjóða upp á á tjaldstæðum og svefnaðstaðan getur stundum verið nánast engin, kannski er vatnskrani og salerni. Þó að það sé meginreglan að bjóða upp á salerni og aðgang að vatni eru dæmi þess að þetta sé ótrúlega rýr þjónusta. Þetta er þjónustuskattur og ef leggja á skatt á þjónustu finnst mér að það mætti skoða þetta og vona að það verði gert í nefnd; að leggja gistináttagjald á stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi og tjöld, mér finnst að það mætti skoða það enn nánar, a.m.k. fá frekari rök fyrir því af hverju er verið að setja þessa tegund gistingar undir sama hatt og gistihús og skemmtiferðaskip. Ef maður skoðar 2. gr. í lögum um gistináttaskatt er sagt, með leyfi forseta:

„Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi“ — það er engin svefnaðstaða fyrir hendi ef þú kemur með tjaldið þitt eða bílinn og sefur í honum — „eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi, þ.m.t. herbergi á hótelum og gistiheimilum …“

Svo kemur í lokin, með leyfi forseta, „sem og tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla …“ o.s.frv. Mér finnst svolítið verið að setja þarna inn skatt á þessa tegund gistingar sem býður upp á litla þjónustu og einstaklingarnir, dvalargestir, svo ég noti hugtakið í frumvarpinu og í lögunum, eru nánast að koma með hana algjörlega sjálfir.

Annað sem mig langar að benda á varðandi skemmtiferðaskipin er að það segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Með skemmtiferðaskipum er átt við skip sem bjóða upp á flutningaþjónustu á sjó og eru eingöngu starfrækt í skemmti- eða tómstundarskyni, auk þess sem þau eru með aðstöðu til gistingar o.fl. og gistinætur um borð eru að jafnaði ein eða fleiri. Í ljósi þessa ásamt því að gert er ráð fyrir að dvalargestur hafi umráð yfir gistiaðstöðu í skipi í allt að einn sólarhring hverju sinni ber ekki að greiða gistináttaskatt af fargjaldi farþegaflutningaskipa eins og t.d. Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi og Breiðafjarðarferjunni Baldri.“

Mér finnst þetta ekki alveg nægilega skýrt. Gistináttagjald á að sjálfsögðu ekki við ferjusiglingar vegna þess að það sefur enginn yfir nótt í Baldri eða Herjólfi þó að maður geti náttúrulega lagt sig þar, sem er sjálfsögð þjónusta. Þegar við horfum á lögin finnst mér að það mætti vera skýrara hvaða skemmtiferðaskip þetta eru. Ég fagna því að það sé settur skattur á skemmtiferðaskipin sem eru að koma í hafnir landsins þar sem þau greiða hafnargjöld sem fara til sveitarfélagsins. Þá mætti hluti af gistináttagjaldinu líka fara til þeirra sveitarfélaga sem eru að taka á móti þessum skipum. Það er ákveðið álag á sveitarfélög og innviði þeirra sem þau mættu njóta góðs af til að efla ferðaþjónustu og styrkja þá innviði sem til eru til að taka á móti ferðamönnum. Til þess þarf fjármagn. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir ríkisvaldið að skoða frekar tekjur hvað varðar gistináttaskatt. Ég er ekki talsmaður hárra skatta en það breytir því ekki að við þurfum að horfa á það hvernig ríkið er að afla tekna, og sérstaklega sveitarfélögin, af þessum mikilvæga iðnaði sem landsbyggðin þarf að njóta góðs af. Fólk er fyrst og fremst að koma til að skoða landið, ekki endilega til að hitta Reykvíkinga. Þó að það sé skemmtilegt að skoða borgina er mikilvægt að landsbyggðin og sveitarfélög úti á landi fái notið tekna af aukinni komu ferðamanna og þessari stóru atvinnugrein sem hér er.

Ég tel að hér sé um þarfa breytingu að ræða á skattkerfinu. Þetta er væntanlega byrjunin á frekari umræðu um þetta gjald og ég held að við eigum að horfa til nágrannalanda okkar. Ég tek eftir því á ferðalögum að oft stendur gistináttaskattur fyrir utan það gjald sem maður greiðir. Ég hef farið til stórborga eins og Parísar og þá kemur oft á óvart að gistináttagjaldið miðar ekki við krónutölu heldur prósentu. Það er líka atriði sem mætti skoða. Að það sé sama gjald og fyrir Covid, 300 kr., finnst mér satt að segja mjög vægt. Miðað við stöðu ríkissjóðs — við rekum hann enn þá með halla — þarf að finna staði til að afla frekari tekna og þá þurfum við að horfa á atvinnugreinar sem eru í bullandi vexti. Það eru takmörk fyrir því hversu mörgum ferðamönnum við getum tekið á móti og við þurfum bráðum að fara að spyrja okkur að því hversu mörgum ferðamönnum við ætlum að taka á móti. Á þessu ári tökum við væntanlega við 2,2 milljónum, á næsta ári held ég að það sé gert ráð fyrir 2,3 milljónum. Eigum við að fara að taka á móti 3, 4 eða 5 milljónum ferðamanna á ári, 370.000 manna þjóð, 370.000 manna samfélag? Við erum fyrst og fremst að flytja inn erlent vinnuafl til að sinna þessari þjónustu og þetta eru ekki hátekjustörf. Það hefur komið fram í fyrirspurn til ráðherra að vel launuð störf og vel menntað fólk — þessi atvinnugrein getur haft ruðningsáhrif og hin svokallaða hollenska veiki getur komið hingað, þar sem aðrar atvinnugreinar fá ekki að þrífast vegna þess að umfang ferðaþjónustunnar er svo mikið. Með þessu er ég ekki að tala gegn þessum iðnaði á nokkurn hátt heldur þurfum við að huga að því að byggja upp þekkingariðnað með ferðaþjónustunni líkt og með sjávarútveginum.