154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda vegna andlegra áfalla út af ástandinu í Grindavík.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Jú, það er akkúrat verið að virkja þetta á forsendum bæjaryfirvalda Grindavíkur og í samráði við þau og félagsmálaþjónustuna og skólayfirvöld Grindavíkur, að skipuleggja þessa þjónustu. Svo verðum við að horfa fram í tímann vegna þess að það er talið að við slíkar kringumstæður sem skapast, og við þekkjum því miður oft, kringumstæður sem tengjast móður náttúru, þrói u.þ.b. 10% af þeim sem verða fyrir slíkum áföllum með sér áfallastreituröskun til lengri tíma, þannig að þetta þurfum við líka að skipuleggja. En núna erum við að ná utan um hópinn, utan um börnin, utan um skólahópa, utan um alla þá þjónustu sem hægt er að þiggja á vettvangi. Við erum með í þessum hópi aðila frá Landspítalanum sem eru þá að bjóða upp á þjónustu sem þarfnast heilbrigðiskerfisins og aðkomu þess, þannig að við erum á öllum stigum (Forseti hringir.) þessa dagana að ná utan um þessa þjónustu.

Varðandi fjármögnun (Forseti hringir.) verð ég bara að segja hér að ég er hlynntur því að við tökum utan um svona verkefni, svona stórt verkefni, (Forseti hringir.) í gegnum fjáraukalög eins og við gerðum í gegnum Covid.