154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[15:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Nýlega talaði ég við mann sem keypti sína fyrstu íbúð með konu sinni fyrir tveimur árum. Vextir af húsnæðisláninu ruku svo upp og mánaðarlegar afborganir urðu hærri en þau réðu við. Ungu hjónin hafa síðan fært sig yfir í verðtryggt lán og sjá nú verðbólguna leggjast ofan á höfuðstól lánsins og sparnaðinn sinn fuðra upp. Gerðu þessi ungu hjón eitthvað rangt? Nei, þau höfðu lagt fyrir og gerðu ráð fyrir að eiga afgang um hver mánaðamót en lentu bara í því að kaupa á vitlausum tíma. Síðan hafa vextir verið hækkaðir 14 sinnum, stýrivextir standa í 9,25% og þar má benda á að aldrei hafa fleiri keypt fyrstu íbúð en á árunum 2020 og 2021. Rúmur fjórðungur lántakenda var með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum þegar vextir byrjuðu að hækka. Einn af hverjum fjórum. Í ár munu 4.500 heimili bætast í þennan hóp þegar þau verða ekki lengur í skjóli fastra vaxta. Eina bjargráðið er að flytja sig yfir í verðtryggð lán og núna er staðan sú að flestu ungu fólki reynist ómögulegt að kaupa íbúð ef pabbi eða mamma geta ekki hjálpað til.

Forseti. Vandinn í dag er útbreiddur og þess vegna óskaði ég eftir sérstakri umræðu við fjármálaráðherra, því að ríkisstjórnin hefur hingað til eingöngu talað um stuðning við lágtekjuhópa. Alþingi stendur auðvitað sameinað þar og ég spyr: Hvað með aðra hópa sem finna verulega fyrir auknum útgjöldum og háum vöxtum; fólk sem nýlega keypti, fólk sem er með hlutfallslega há útgjöld vegna barna og námslána, millistéttin á Íslandi? Þessi hópur er skilinn eftir.

Fjárlagafrumvarpið er af Seðlabankanum sagt vera hlutlaust gagnvart verðbólgunni sem segir okkur bara að ríkisstjórnin er í því hlutverki að gera ekki illt verra. En í svona ástandi er það ekki nóg. Svar ríkisstjórnarinnar þegar heimilin eru að sprengja sig á háum vöxtum er yfirleitt: Finnið þið ekki hagvöxtinn? Hagvöxtur á mann er hins vegar lítill og byggir á því að við erum heimsmeistarar í fólksfjölgun. Þess vegna finnur fólk ekki fyrir hagvexti. Fólk sem ekki ræður við afborganir fær líka að heyra að það sé að eignast svo mikið, en fólk sem á eina íbúð borgar ekki af lánum með auknu prósentuhlutfalli í íbúð og yfirdráttarlán eru í fyrsta sinn komin yfir 100 milljarða. Vextir heimila af yfirdrætti hafa ekki verið meiri síðan í hruninu. Kaupmáttur meðallauna hefur á Íslandi sveiflast fjórum sinnum meira undanfarin 20 ár en innan OECD. Verðbólga jókst hér um helming milli ágúst 2022 og 2023, og þetta er einsdæmi. Stýrivextir eru rúmlega tvöfaldir á við nágrannalönd og hér verðum við að horfa á þá meinsemd sem einkennir íslenskt samfélag, sem er óstöðugleiki hagkerfisins.

Þessum erfiðu sveiflum fylgja erfiðar kjaraviðræður. Auðvitað er erfiðara og verra að semja um laun í landi óstöðugleika en þar sem stöðugleiki ríkir. Almenningur er langþreyttur á ástandinu. Ævintýralega háir vextir skapa síðan næstu fasteignabólu. Byggingamarkaðurinn fer í frost þegar fjármögnun lána er svona dýr. Eftirspurn eftir húsnæði safnast upp en framboð fylgir ekki. Þetta skilar svo hærra fasteignaverði þegar fram líða stundir. Hvaða aðgerðir sér ráðherra til að bregðast við augljósum áhrifum á byggingamarkaðinn?

Forseti. Val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat en ég er hér í dag að ræða um stöðuna eins og hún horfir við okkur núna. Viðreisn vill að stjórnvöld beiti vaxtabótum, barnabótum og húsnæðisbótum tímabundið hærra upp tekjustigann en verið hefur vegna þess að millistéttin hefur tekið á sig þungt högg. Þetta er réttlætismál. Opinberir sjóðir eru hins vegar ekki botnlausir og við verðum að stefna að því að komast út úr þeirri stöðu að ríkið sé að niðurgreiða vaxtakostnað, en háir vextir munu fylgja því að velja örgjaldmiðil.

Nú blasir við stöðnun um lífskjör á Íslandi, ekki síst hjá millistéttinni. Millistéttin greiðir nú þegar háa skatta og finnur mjög fyrir vaxtahækkunum. Önnur hver króna sem hagkerfið skapar er greidd í skatta eða í lífeyrissjóði. Þessi skattbyrði, sem er borin uppi af launafólki og fyrirtækjum, er með því hæsta í alþjóðlegum samanburði. Það þarf að sýna forystu í aðgerðum gegn verðbólgu, forgangsraða verkefnum eins og heimilin eru að gera í þessu ástandi; minna bruðl. Skynsamleg velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingu í þágu almannahagsmuna, að sýna hófsemi í skattlagningu. Kerfin eiga að vera til staðar fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt þannig að fólkið sé að vinna í þágu kerfisins.