154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:00]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um þessa gríðarlega háu vexti á Íslandi og áhrif þeirra á heimilin er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað gefur stjórnmálamönnum eða embættismönnum vald til að kollvarpa lífum fólks eftir eigin geðþótta? — Já, ég segi eftir geðþótta. Jú, það er verðbólga, en að beita jafn harkalegum aðgerðum gegn henni og raun ber vitni sem beinast svo til eingöngu að heimilum landsins, almenningi sem ber ekki nokkra sök á þeim þáttum sem valdið hafa verðbólgu, er ekki hægt að réttlæta með neinum hætti. Hvernig geta þeir sem stjórna málum hér leyft sér að taka sér svona mikið vald yfir lífi fólks og afkomu? Það er ekki hægt að gera áætlanir um eigin framtíð á Íslandi af því að efnahagsstjórnin er í algjörum molum. Alveg sama hversu skynsamt fólk er, hversu lítið það reynir að skuldsetja sig, hvernig lán það tekur, þau eru alltaf einhvern veginn knésett.

Staðan er þannig núna að fólk er að greiða 60–80% af ráðstöfunarfé sínu í vexti — í vexti — til bankanna. Það er staðreynd að greiðsluseðlar sýna fram á að af 500.000 kr. afborgun fari um 10.000 kr. inn á lánið. Þannig hefur höfuðstóll lánsins lækkað um 120.000 eftir árið en bankinn stungið 5,9 millj. kr. í eigin vasa að fé þessa tiltekna heimilis. Annað dæmi snýst um tæplega 11 millj. kr. lán. Þar er afborgun lánsins 113.000 og þar af eru vextirnir heilar 110.530 kr. En inn á lánið sjálft væri ekki nema 1.600 kr. eða 1,4% af afborguninni. Inn á lánið fara sem sagt 19.200 kr. á meðan 1,3 milljónir fara í þegar yfirfulla fjárhirslu bankanna. Ég hélt að okurlánastarfsemi væri lögbrot á Íslandi. Þetta er ekkert annað en okur sem þarf að stöðva.