154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:02]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mikilvæg og skiptir máli og er eitt af þeim stærri viðfangsefnum sem við höfum staðið frammi fyrir. Verðbólgan hefur áhrif á samfélagið allt, fólk og fyrirtæki sem finna nú fyrir hækkandi vöxtum sem reynist mörgum þungur baggi að bera um þessar mundir. Ég ætla að einbeita mér að aðeins að húsnæðismálunum. Það er dýrt að byggja íbúðir þegar vextir hækka. Ofan á það koma svo hert lánþegaskilyrði Seðlabankans og þetta hefur letjandi áhrif sem er algjörlega þvert á það sem við sem samfélag þurfum á að halda í dag. Við þurfum að byggja meira og komast út úr þeirri stöðu sem við erum í í dag. Ég hef nefnt að Seðlabankinn verði að stíga skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum og gera fólki auðveldara með að komast inn á markaðinn. En það er ýmislegt búið að gera, eins og aðgerðir hæstv. innviðaráðherra í almenna íbúðakerfinu bera vitni um. Stofnframlög þar voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin. Þetta hefur skilað góðum árangri og er gott innlegg í það markmið að auka framboð á húsnæðismarkaði. Þetta er auðvitað fyrir ákveðna hópa samfélagsins, þá sem eru viðkvæmastir, og skiptir raunverulegu máli. Ofan á þetta bætist mikilvægi þess að fjölga lóðum og ég ætla sérstaklega að nefna höfuðborgarsvæðið. Þar erum við með tæki og tól sem heitir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem við verðum hreinlega að bera gæfu til þess að taka til endurskoðunar án þess að því sé kollvarpað. Þetta tryggir það að við höfum nægt framboð lóða sem mun stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu til framtíðar sem er það sem við þurfum á að halda.