154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér fer fram. Fyrst vil ég byrja á að taka undir margt af því sem hæstv. ráðherra sagði í framsögu sinni varðandi mikilvægi þess að sýna aðhald í ríkisfjármálum, draga úr útgjöldum, fara vel með skattfé og allt það sem í þá veruna var sagt. Það er langt síðan ég heyrði jafn afgerandi gagnrýni ráðherra ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálin undanfarin ár eins og þau hafa verið rekin. Það er ekki langt síðan hér var sett Íslandsmet í útgjaldaaukningu milli ára, sama á hvaða mælikvarða þar var horft, þannig að ég fagna því að fjármálaráðherra sé þessarar skoðunar, sem hlýtur að sýna þetta í verki áður en fjárlög koma til 2. umræðu. Þetta er mikilvægasta vopnið sem við eigum hér í tengslum við stjórnmálin, hvort sem það er hjá ríkisstjórninni eða í aðhaldi okkar hér á Alþingi, þ.e. að sýna aðhald hvað ríkisútgjöld varðar og draga úr kostnaði þar sem hægt er og ganga hægt um gleðinnar dyr. Ég kýs að líta á þessi orð hæstv. fjármálaráðherra sem hvetjandi gagnrýni á sína eigin ríkisstjórn hvað varðar næstu vikur í þinginu. Ég er efins um að þetta jákvæða mat á þróun á fasteignamarkaði sé rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég er hræddur um að staðan á fasteignamarkaði, fyrir okkur sem höldum að hún sé snúin núna, verði miklum mun snúnari eftir, segjum eitt og hálft ár, bara í ljósi þess með hvaða hætti framleiðsla á íbúðum er að þróast. Ég vil sömuleiðis halda því til haga hér að ríkisstjórnin, með hæstv. fjármálaráðherra í fararbroddi í þeim efnum með innviðaráðherra hverju sinni, má ekki gleyma sér í því sem er náttúrlega rangnefni að tala um sem almennar íbúðir, sem eru félagslega styrktu íbúðakerfin. Fram undan er, held ég, miklu alvarlegra ástand í því sem raunverulega er hinn almenni íbúðahluti samfélagsins, (Forseti hringir.) sem eru íbúðir fyrir það fólk sem ekki fellur undir þau stuðningskerfi sem fyrst og fremst er lögð áhersla á nú um stundir hjá stjórnvöldum.