154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:14]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Kostnaðurinn af hárri verðbólgu kemur annaðhvort fram í háum nafnvöxtum eða færslu verðbóta með verðtryggingu. Þetta er vandamálið sem við er að glíma núna. Verkefnið nú sem fyrr er því að ná tökum á verðbólgunni, sem eru engin ný sannindi en þessi sannindi hafa heldur ekki fallið úr gildi. Það verður að segjast að á móti hafa nafnlaun hækkað hér umtalsvert á síðustu árum, hækkað um allt að 10% á ári um nokkurt skeið. Þessar nafnlaunahækkanir koma auðvitað talsvert á móti áhrifum af verðbólgu og vaxtakostnaði um þessar mundir. Þetta skiptir máli því að það er almennt viðurkennt að með 2,5% verðbólgumarkmiði, 1–2% framleiðnivexti, megi nafnlaun ekki hækka meira en sem nemur 4–4,5%. Það er engin sjálfstæð eða trúverðug peningastefna sem getur staðið undir meiri nafnlaunahækkunum en það til lengri tíma án þess að kollvarpa þeirri stefnu. Þá skiptir engu máli hvort við erum að tala um sjálfstæða peningastefnu með verðbólgumarkmið, fastgengisstefnu eða myntráð. Það er engin peningastefna sem stendur undir þessu. Lausnin fyrir fyrirtæki og heimili landsins felst því ekki í að setja gamla rispaða plötu ríkisútgjalda og víxlverkunar launa og verðlags á fóninn. Það mun mistakast eins og alltaf og við þekkjum þessa sögu. Aðrir þekkja hana reyndar minna en ég hugði í þessari umræðu. Lág verðbólga verður ekki tryggð til langframa nema með víðtækri samstöðu um skynsamlegar forsendur launaákvarðana á vinnumarkaði og með aðhaldi á útgjaldahlið ríkisfjármála.