154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

wAfleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:21]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Gríðarleg skuldabyrði heimilanna eru ekki nýjar fréttir fyrir neinn hérna inni en það virðist bara ekki leiða til neinna aðgerða. Þó að ráðherrar ríkisstjórnarinnar birtist við hvert tækifæri til að lýsa yfir áhyggjum sínum og samúð með heimilunum er samt enginn þeirra til í að gera neitt, enginn þeirra er til í að rugga bátnum og setja fjármálakerfinu og seðlabankastjóra stólinn fyrir dyrnar. Áhyggjur ráðamanna eru þannig bara í nösunum á þeim, eins og sagt er, og eitthvað sem þeir verða að segja til að friða kjósendur. En hjarta þeirra er hjá bönkunum.

Það að segja að bankarnir fitni núna eins og púkinn á fjósbitanum er ofnotaður frasi sem nær engan veginn því sem er að gerast. Púkinn er orðinn svo feitur að hann er löngu oltinn af fjósbitanum sem hefur brotnað undan þunga hans. Nú þegar við horfum á skelfilegar aðstæður Grindvíkinga eru þrátt fyrir þær fyrst og fremst vaxtagreiðslur sem valda þeim vanda og áhyggjum. Bankarnir buðu Grindvíkingum, fólki í neyð, upp á að frysta afborgun lánsins, 10.000 kr., en bæta vöxtunum, 490.000 kr., ofan á lánið í hverjum mánuði. Ef þetta ástand stæði í ár myndu varðandi þetta lán bætast 5.880.000 kr. ofan á lánið en bankinn myndi af rausnarskap sínum frysta 120.000 kr. afborgun höfuðstólsins sem, svo það sé skýrt, Grindvíkingar þyrftu samt á endanum að greiða.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessu tilboði bankanna eru vægast sagt máttlaus. Nú eru allir Grindvíkingar í þessari óvissu, alveg sama hversu mikið eða lítið þeir skulda. Þeir þurfa allir á algerri frystingu að halda í a.m.k. sex mánuði því samkvæmt nýjustu fréttum fer enginn þeirra heim fyrr en líður á vorið. Það að í miðjum náttúruhamförum og óvissu vegna þeirra séu áhyggjur vegna fáránlega hárra afborgana lána og hvernig bankarnir bregðist við einn helsti vandi Grindvíkinga, segir sína sögu um stöðu heimila landsins almennt og ofurvald bankanna yfir landi og þjóð. Við verðum að leysa heimilin undan oki þeirra.