154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða um samspil vaxta og verðlags á heimilin. Mig langar að byrja á að minna á það að greiðslur til örorku- og ellilífeyrisþega hafa verið hækkaðar tvisvar á ári undanfarin tvö ár, nokkuð sem venjulega er gert einu sinni á ári, einmitt vegna verðbólgunnar og að ríkisstjórnin hefur nú þegar lagt til eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í desember. Það eru aðgerðir sem svo sannarlega skipta miklu máli fyrir þau heimili sem þar eru undir. Ég er sammála þeim sem hafa talað hér um að það verði að skoða sérstaklega stöðu barnafólks sem oft er líka fyrstu kaupendur, en hækkun vaxta hefur lent mjög illa á þessum hópi. En það er einnig fleira sem hefur áhrif á laun þeirra. Þau eru t.d. lægri en þau þyrftu að vera vegna skorts á leikskólaplássum. Það er alvöruatriði sem hefur áhrif á ráðstöfunartekjur ungs barnafólks og mér finnst mikilvægt að hafa augun líka á því.

Frú forseti. Það eru ýmis orð sögð í svona umræðu eins og minna bruðl og ekki að eyða óþarflega miklu. Ég ætla bara rétt að vona að þar sé ekki verið að vísa í heilbrigðis- eða velferðarkerfið okkar og að það eigi að fara í einhvern niðurskurð þar. Mig langar bara að minna á að hv. þingmaður, sem er samflokksmaður hv. þingmanns sem hóf þessa mikilvægu umræðu, vísaði í það fyrr í dag að þessi kerfi þyrftu m.a. að grípa Grindvíkinga. Ég er svo hjartanlega sammála því og þess vegna þarf í öllum aðgerðum til að ná niður verðbólgunni að standa vörð um grunninnviði okkar á sama tíma.