154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir klassískt íslenskt óveður sem heimilin og hluti fyrirtækja finna rækilega fyrir, óveður sem erfiðar kjarasamninga. Á tímum sem þessum þurfum við skýr skilaboð og styrka forystu; samhenta ríkisstjórn en ekki sundraða og við þurfum ríkisstjórn sem skilar fjárlögum sem hjálpa til í baráttu gegn verðbólgu. Það er bara því miður ekki reyndin í dag eins og við sjáum t.d. á ummælum Seðlabankans um að fjárlögin séu hlutlaus. Það þýðir: Þau gera ekki vonda stöðu erfiðari. Hjálpa þau til? Nei.

Það er staðreynd að tímabil hárra vaxta er lengra á Íslandi en í löndum sem við horfum almennt til. Það er líka staðreynd að vextir eru margfalt hærri á Íslandi en í löndum sem við horfum almennt til. Það er í því samhengi ábyrgðarhluti að neita að ræða kostnað á krónunni fyrir íslenskan almenning. Verðbólga og séríslenskir vextir hafa mikil áhrif á heimilin í landinu núna og á fleiri en láglaunahópa. Fólk sem er að borga af húsnæðislánum á ekki að þurfa að vera statt í miðri áhættufjárfestingu. Það á ekki að vera veruleiki ungra barnafjölskyldna og það á ekki að þurfa að fjármagna sig á yfirdráttarlánum því að tölurnar um yfirdrátt sem við erum að sjá núna eru ógnvænlegar. Það er rangt pólitískt að velta öllum kostnaði yfir á þennan hóp, ungar barnafjölskyldur, að láta afmarkaðan hóp samfélagsins, barnafjölskyldur á Íslandi, taka á sig allar vaxtahækkanir af fullum þunga. Það hefur afleiðingar og það er óréttlátt að svo sé. Verkefnið á að vera að gera fólki kleift að eignast íbúð og að það þurfi ekki að vera áhættufjárfesting. Það á að vera hægt að beita ríkisfjármálunum í þágu þess málstaðar. Það er vitaskuld hægt án þess að það þurfi að þýða að það sé hoggið í heilbrigðiskerfi eða velferðarþjónustu. Sannarlega er ekki verið að tala fyrir því hér.