154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[17:17]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu og öðrum hv. þingmönnum fyrir þeirra innkomu hér. Ég skynja ekkert annað í þessum ágæta þingsal og í umræðum sem við höfum átt um þetta mál á öðrum vettvangi þingsins en að það sé ríkur vilji til að greiða götu þessa máls hratt og örugglega, enda ríður mikið á. Ég fagna því hvað þetta mál er hratt fram komið. Hæstv. ráðherra bendir á að þetta er forgangsmál, það hefur verið forgangsmál hjá ríkisstjórninni að taka á því sem lýtur að greiðslu launa, þ.e. innkomu fólks, ásamt mjög mörgum öðrum verkefnum sem liggja fyrir hjá hinu opinbera en fyrst og fremst hjá Grindvíkingum sjálfum. Það sem við getum gert er að reyna að leggja eins mikið lið og við lifandi getum, m.a. með því að vinna hratt að þeim málum sem fram eru komin en vissulega af vandvirkni. Ég veit að það hefur verið gert í þessu máli, unnið hratt en að sama skapi liggur góð vinna þarna að baki af hálfu hæstv. ráðherra og hans ráðuneytis í ríkri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í sinni framsögu, og önnur ráðuneyti sem hlut eiga að máli og er það vel. Ég vona, frú forseti, að atvinnurekendur geti nýtt sér þetta úrræði til stuðnings fullum launagreiðslum til launþega sinna í þessu ástandi sem ríkir. Það er brýnt að þessir einstaklingar sem um ræðir haldi ráðningarsambandi sínu og verði ekki fyrir tekjutapi á þessum tímum. Hér er hið opinbera að gera sitt og við hér á þingi munum ekki láta standa á okkur að gera okkar til þess að leggja þessu stóra verkefni lið og ég fagna því sem ég heyri hér hjá öðrum hv. þingmönnum, mér heyrist við öll vera í því sama liði.