154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:55]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á umræðuna sem hefur farið hér fram og mig langaði bara aðeins að bæta hérna við. Stærstur hluti allra þeirra matvæla sem framleidd eru á Íslandi er seldur í stórmörkuðum, svona 90–95%, þannig að það er mjög mikilvægt að þessir stærri framleiðendur hafi einhvers konar vægi og geti haft ákveðið samstarf í því að koma þeirri vöru á framfæri. Ég óttast það ekki að minni framleiðendur, smáframleiðendur, verði halloka í því þrátt fyrir að frumframleiðendum séu veittar ákveðnar heimildir til samstarfs og hagræðingar innan geirans. Við þekkjum það, af því að hér hefur verið talað um Evrópusambandið og okkar nágranna, að þar er virkur markaður smáframleiðenda þrátt fyrir allar þær heimildir sem frumframleiðendur á því svæði hafa til umráða. Það er mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu og mér sýnist nú ekki vera sú hætta sem sumir eru að mála upp.

Það á líka við um vöruþróun og nýsköpun. Þar höfum við ákveðið flaggskip landbúnaðarins, Mjólkursamsöluna, sem hefur hingað til staðið sig feikivel í vöruþróun og nýsköpun á sínum vörum og ég tel í því ljósi að það séu viss tækifæri sömuleiðis fólgin í því að frumframleiðendur geti haft með sér þetta samstarf vegna þess að við erum að leita eftir ákveðinni hagræðingu innan afurðageirans. Það kemur til með að skapa mikið hagræði og auknar tekjur í þessu samhengi og um leið og það gerist þá hafa menn bolmagn til að stunda ákveðna vöruþróun og nýsköpun. Ég skora á hv. þingmenn að kynna sér það og þá miklu flóru sem t.d. við höfum séð koma fram í vöruþróun og nýsköpun Mjólkursamsölunnar. Þannig að það skapast mörg tækifæri þegar við náum þessu fram, sem við vonandi gerum og hæstv. ráðherra sem mælti fyrir þessu ágæta frumvarpi hefur lagt áherslu á, það skapast og opnast tækifæri sömuleiðis til að efla og bæta innlenda matvælaframleiðslu.

Ég ítreka það að lokum, virðulegi forseti, að það er engan veginn hægt — eða jú, það væri svo sem hægt en ég óttast það ekki að smáframleiðendur verði halloka í því ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Það er bara ákveðin list og ákveðinn markaður sem þar er verið að sækja á. Megnið af allri sölunni á matvælaframleiðslunni fer fram í gegnum stórmarkaði og við vitum það sömuleiðis varðandi markaðinn fyrir vörur sem koma frá smáframleiðendum að þar erum við að horfa á svona meira til vöru beint frá býli og allt í þeim dúr. Það skulum við hafa í huga í umræðunni um þetta.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari góðu umræðu sem hefur orðið um þetta ágæta frumvarp og það verður áhugavert og sömuleiðis krefjandi verkefni fyrir atvinnuveganefnd að takast á við.