154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kvikmyndalög.

486. mál
[16:30]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir þessa framsögu og fyrir að kynna okkur fyrir þessari bættu stefnu sem lýtur m.a. að varðveislu og þjónustu við arfinn. Nú hef ég ekki fundið það, en ég vil ljúka lofsorði enn einu sinni á það frumkvæði að móta stefnu í öllum helstu greinum okkar menningarlífs. Kvikmyndastefnan er frábær og ekki síður sú tónlistarstefna sem nýbúið er að samþykkja. Er það ekki alveg skýrt að Kvikmyndasafni Íslands ber að færa í stafrænt form allar þær kvikmyndir sem hafa verið framleiddar á Íslandi með sama hætti og hið lofsverða framtak að færa öll hljóðrit Íslands undir þak Þjóðskjalasafnsins og yfirfæra þar í stafrænt form? Þetta er bara spurning sem ég vildi varpa fram um leið og ég vek athygli á því að þetta eru mjög þörf og mikilvæg skref sem hér er verið að stíga og fullkomlega eðlilegt að það séu endurgreiðslur frá þeim verkefnum sem verða kannski að miklum efnahagslegum undrum í dreifingar- og söluheimi sjónvarps- og kvikmyndahúsanna. Að lokum þá er talað um sérstakan sjóð sem komi til viðbótar til að framleiða sjónvarpsseríur og annað slíkt. Mér leikur forvitni á að vita hvers konar upphæðir eru þar undir.