154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kvikmyndalög.

486. mál
[16:37]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma að þessu varðandi Kvikmyndasafnið. Því ber skylda að viðhalda og koma menningararfinum á viðeigandi form. Það er skylda þess að ganga svo frá kvikmyndum og öðru slíku.

Varðandi frekari skattalega hvata þá tel ég, eins og staðan er í dag, að við séum með mjög gott kerfi. Við erum mjög samkeppnishæf, bæði þegar við hækkuðum endurgreiðsluna upp í 35% af stærri verkefnum og síðan má í raun og veru segja að þetta hafi orðið þess valdandi að það varð gríðarlegur vöxtur, bæði í því að fá inn erlend verkefni en líka, sem ég er mjög ánægð með, í innlendri kvikmyndagerð. Ég held að við séum bara á mjög góðum stað varðandi starfsumhverfi kvikmynda. Ég sé það ekki, alla vega núna á næstunni, að við gerum einhverjar breytingar á því. En auðvitað fylgjumst við með þessu og ég mun beita mér fyrir því að það verði árleg eftirfylgni með kvikmyndastefnunni. Helst myndi ég líka vilja koma því inn í þingið af því að það sem við erum að gera er gjörbreyting á stefnumótun hinna skapandi greina. Til að viðhalda þessum vexti og framtíðarsýn er mjög mikilvægt að Alþingi fái reglubundna skýrslugjöf um framgang kvikmyndastefnu og svo um framgang skapandi greina á Íslandi.