154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[15:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Það er spennandi að fá þetta mál hér inn í þingsal og auðvitað mjög mikilvægt. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, ég held að jafnvægi sé ákveðið lykilorð í þessari umræðu. Þetta er stórt verkefni sem varðar lífskjör og lífsgæði en ekki síst jafnvægi og að ná utan um þessar dramatísku sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hér á landi. Það er margt sem mætti kannski skoða samhliða eins og einföldun regluverks.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í stöðuna í dag og kannski til næstu tveggja, þriggja, fjögurra ára. Við erum að horfa á langt tímabil hárra vaxta og ég myndi vilja heyra viðbrögð og sjónarmið ráðherra við því hverjar varnir stjórnvalda eru í því samhengi; háir vextir auka fjármögnunarkostnað verktaka og hægja mjög auðveldlega á uppbyggingu. Ég las viðtal við Kristján Baldursson fasteignasala í dag sem sagðist sjá það í auknum mæli að fléttur í fasteignakaupum gangi ekki upp vegna þess að fyrstu kaupendur geta ekki fjármagnað sig. (Forseti hringir.) Hver eru viðbrögð stjórnvalda við þessari stöðu í dag þannig að við séum ekki að horfa upp á frost og funa á húsnæðismarkaði til skiptis?