154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:08]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Tilgangurinn með því að hafa stefnu og framtíðarsýn er að vinna eftir henni og með fyrirsjáanleika auka líkurnar á því að þú náir markmiði um hvernig það er gert. Það byggir auðvitað á ólíkum sviðsmyndum. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna eru t.d. ekki lengur skýrsla sem er sett upp í hillu heldur eru það stafrænar upplýsingar sem endurnýjast og eru síðan orðnar hluti af fjárhagsáætlun viðkomandi sveitarfélags og eru hluti af ákvörðun um hversu háar fjárhæðir eru settar í stofnframlög o.s.frv. Í fjárhagsmati þessarar þingsályktunartillögu er m.a. fjallað um áhrif þess að fjölga úr þessum 2%, sem eru milli 2 og 3% í dag, af óhagnaðardrifnu leiguhúsnæði í 6%. Þar er sagt að það muni hafa umtalsverð áhrif til að jafna leiguverð og búa til stöðugleika og svara þeirri eftirspurn sem er búist við miðað við þær forsendur sem menn eru að teikna upp miðað við húsnæðisáætlanirnar 2023. (Forseti hringir.) Breytast þær árið 2027? Það veit hvorki þingmaðurinn (Forseti hringir.) né ég en við vitum báðir að ef við höfum stefnu til að vinna eftir er líklegra að við náum markmiðinu heldur en ef við höfum enga stefnu.