154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sjúkrahúsinu á Akureyri verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar.

384. mál
[17:50]
Horfa

Ragna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni Norðausturkjördæmis, Loga Einarssyni, fyrir þessa þingsályktunartillögu. Í viðtali sem birtist í ágúst síðastliðnum í fjölmiðlinum akureyri.net var forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, Hildigunnur Svavarsdóttir, spurð um þessa skýrslu sem vísað er til í greinargerð þingsályktunartillögunnar og forstjóri sjúkrahússins sagði að tilvalið væri að ráðuneyti dustaði rykið af skýrslunni frá 2019 um fýsileika þess að hefja hjartaþræðingaraðgerðir á stofnuninni. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem talað hafa hér á undan um gagnsemi og kosti þess að fara í það að hefja hjartaþræðingaraðgerðir á stofnuninni, sé það talið fýsilegt. Auðvitað þarf að gera það í samstarfi og samráði við bæði ráðuneytið og Landspítala og jafnvel erlendar stofnanir, sjúkrahús, til að viðhalda þjálfun starfsfólks. Ég vil nýta tækifærið jafnframt til að benda á mikilvægi þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að bæta mönnun og laða að starfsfólk til Sjúkrahússins á Akureyri og annars staðar í landsbyggðunum og vil af því tilefni benda á tvær fyrirspurnir sem sú sem hér stendur hefur lagt fyrir, annars vegar hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og hins vegar hæstv. heilbrigðisráðherra um ívilnanir við endurgreiðslu námslána heilbrigðisstarfsfólks. Þetta getur átt bæði við um lækna, hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur fengið námslán vegna menntunar sinnar. Það er heimild í lögunum um Menntasjóð námsmanna til ívilnunar við endurgreiðslu námslána, bæði vegna námsgreina þar sem talinn er vera skortur á starfsfólki, ég nefni þar til að mynda í heilbrigðiskerfinu, og á sérstökum svæðum. Þar geta landsbyggðirnar vel talist með. Það er ákveðin forvinna sem þarf að vinna til að heimildin í lögunum sé nýtt og það má spyrja sig að því hvort sú vinna sé óvenjuþung í vöfum. En þetta er eitthvað sem að mínu mati ætti að ráðast í, að fella niður hluta af námslánum til að laða að fólk til starfa víða um land.