154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

378. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010 (hækkun bankaskatts). Með mér á frumvarpinu er þingflokkur Flokks fólksins, hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Við breyttum frumvarpinu lítillega. Við höfum verið að mæla fyrir því ítrekað að bankaskatturinn verði færður í það horf sem var áður. Við vorum með okkur núna tvo meðflutningsmenn á því frumvarpi, annars vegar frá Pírötum, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, og hins vegar hv. þm. Samfylkingarinnar, Oddnýju G. Harðardóttur. Þau eru ekki meðflutningsmenn á okkur á þessari breytingu á frumvarpinu sem ég er að fara að koma með hér og nú.

Svo segir í 1. gr. frumvarpsins: „Í stað „0,145%“ í 4. gr. laganna kemur: 0,838%.“ — Við skulum átta okkur á því að við erum ekki einu sinni komin með hann í 1%, þennan blessaða bankaskatt. Hann er ekki kominn í 0,9%. Við erum að biðja um 0,838%.

2. gr.: „Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Gjaldhlutfall 4. gr. skal endurskoðað þegar vextir húsnæðislána fara undir 5%.“

3. gr.: „ Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

Í frumvarpi þessu er lagt til að hækka gjaldhlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, svonefnds bankaskatts, í 0,838%. Miðað við frumvarp til fjárlaga ársins 2024 myndi aðgerðin auka tekjur ríkissjóðs um rúma 30 milljarða kr. — Ég ætla að endurtaka það: Myndi aðgerðin auka tekjur ríkissjóðs um rúma 30 milljarða kr. á ársgrundvelli.

Forsögu þessa skatts má rekja til efnahagshrunsins árið 2008, en með frumvarpi um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki var leitast við að hvetja fjármálafyrirtæki til að fjármagna sig með öruggari hætti, þ.e. að vera með hátt eigið fé og tryggð innlán.

Allt frá upphafi árs 2014 hélst gjaldhlutfallið óbreytt, en með lögum nr. 131/2019 var ákveðið að lækka bankaskattinn úr 0,376% í 0,145%, eins og hann er nú. Vert er að taka fram að auk þess voru sett ákvæði til bráðabirgða um hærri bankaskatt á árunum 2020, 2021 og 2022, en gjaldhlutfallið átti þá að vera 0,318%, 0,261% og 0,203% á þessum þremur árum. Þessi bráðabirgðaákvæði voru þó felld niður 1. apríl 2020 og hefur bankaskatturinn því verið 0,145% á síðustu árum. Ástæða lækkunarinnar var sögð vera sú að það ætti að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra.

Stóru íslensku bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkun bankaskattsins og sagt að með henni myndi vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, dragast saman. Meðal annars hefði þetta átt að leiða til ódýrari lána til heimila og fyrirtækja. Það er þó ljóst að lækkun bankaskattsins hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun og er hann svipaður nú og hann var árið 2018. Vaxtamunurinn hjá íslenskum bönkum er auk þess hár í norrænum samanburði, en hann hefur lítið breyst frá því að hvítbók um framtíð fjármálakerfisins kom út árið 2018. Þess má geta að meðalvaxtamunur íslenskra banka var 2,7% árið 2022 en hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð var hann 1,6%, og enn minni hjá stórum norrænum bönkum þar sem hann nam 0,9%. Þannig að það er náttúrlega alltaf sama græðgin hér. Þessar upplýsingar komu m.a. fram í skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra, sem hafði það verkefni að greina tekjumyndun, þar á meðal þóknanir, þjónustu- og vaxtatekjur og vaxtamun, viðskiptabankanna þriggja í norrænum samanburði. Þess má geta að bæði miðstjórn Alþýðusambands Íslands ásamt formanni BSRB hafa gagnrýnt lækkun bankaskattsins.

Stóru viðskiptabankarnir þrír skiluðu 66,9 milljörðum kr. í hagnað á síðasta ári. Núna á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa þeir þegar hagnast um tæpan 61 milljarð, hvorki meira né minna, og það lítur út fyrir að hagnaður þeirra muni skaga hátt í 100 milljarða á árinu ef fram heldur sem horfir. Á meðan hagnaður bankanna í fyrra var 66,9 milljarðar kr. þá höfðum við, ríkissjóður, tekjur af bankaskattinum upp á 5,3 milljarða sama ár. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að bankarnir eru meira en aflögufærir og rúmlega það til að taka á sig hækkun af bankaskattinum á tímum sem þessum og verða þeir að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Því er lagt til að bankaskattur verði hækkaður í 0,838% og lagt er til að skatthlutfallið verði endurskoðað þegar vextir á húsnæðislánum fara undir 5%.

Hvers vegna skyldi maður grípa til þessa úrræðis að reyna að ná í auknar tekjur úr þessari græðgismaskínu sem bankarnir eru? Ég get talað af eigin reynslu með eitt lítið lán sem er ríflega 10 millj. kr. Ég borga 1.600 kr. á mánuði í höfuðstól lánsins, 1.613 kr. í höfuðstól lánsins, en tæpar 111.000 á mánuði í vexti. Við sáum líka reikning frá einum bankanum núna sem gekk eins og eldur í sinu um Akureyri á fésbókinni á dögunum þar sem sá einstaklingur var kominn í snjóflóðið sem er að falla á þá sem hafa verið með fasta breytilega vexti. Lánið hans hefur náttúrlega margfaldast, tæplega þrefaldast, takk fyrir. Og hvað skyldi hann nú vera að greiða inn á höfuðstólinn af láninu, sem eru 40 millj. kr.? Jú, hann er að greiða 10.000 kall, takk fyrir, inn á höfuðstólinn en tæpa hálfa milljón í vexti á mánuði — tæpa hálfa milljón í vexti á mánuði.

Hvað getum við mögulega gert til að ná í peninga í þessa græðgismaskínu? Hvernig eigum við mögulega að geta gert eitthvert gagn? Og t.d. þessir 30 milljarðar, þeir eiga skilyrðislaust að verja heimilin. Ég segi fyrir mína parta: Það er löngu orðið tímabært að reisa alvöruskjaldborg um heimilin í landinu. Það er löngu orðið tímabært að viðurkenna það ófremdarástand sem er komið hér og er að þróast hér á fasteignamarkaði. Það liggur algjörlega á borðinu að sá einstaklingur sem fær greiðslumat upp á að geta greitt af íbúðaláninu sínu og greiðslumatið er kannski að gefa honum það að hann sé bær til þess að greiða um 200.000 kr. á mánuði, sá einstaklingur mun ekki geta greitt 500.000 kr. á mánuði. Það liggur á borðinu.

Það liggur líka á borðinu að það er einbeittur vilji að ná fasteignunum af fólkinu með öllum tiltækum ráðum. Þess vegna hefur Flokkur fólksins komið með frumvarp, okkar hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem á nákvæmlega að verja það að það sé mögulegt að skella það mikilli greiðslubyrði á áður tekið lán að það verði ómögulegt fyrir einstaklinginn að standa undir þeirri skuldbindingu sem hann þó undirgekkst á þeim tíma þegar hann tók lánið. Ég held að það sé ekki í mörgum eðlilegum samfélögum sem ætla að kalla sig samfélag réttarríkis og sanngirni, ég efast um að það sé þannig í mörgum slíkum samfélögum þar sem einstaklingur sem tekur lán og skrifar undir lán, hann veit í rauninni ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, er bara algerlega í djúpu lauginni, hvorki með kút né kork. Þeir sem eru með axlabönd, belti og kút og kork og allt heila klabbið, það eru þeir sem eru að græða á tá og fingri á því ömurlega óráðsíuefnahagsástandi sem við erum að glíma við hér í dag.

Að horfa upp á það að þessir bankar muni hagnast sennilega um 100 milljarða núna á árinu 2023 og svo koma einhverjar silkihúfur upp og segja: Heyrðu, Flokkur fólksins, hvað heldur hann að hann sé að gera með þessu ef hann ætlar að ráðast svona á bankana, ha, sem græða nú ekki nema næstum því 100 milljarða á árinu? Ja, þau eru sennilega bara að fara að láta þá dúndra þessu út í verðlagið og hækka bara enn þá meira vextina og græða þá enn þá meira. — Það er alfarið í bankanna sjálfra höndum, enda hafa þeir ekki hikað við það. Ekki heldur þegar við lækkuðum bankaskattinn, þá hikuðu þeir ekki við það að hækka þjónustugjöld, jafnvel draga úr þjónustu. Þeir gera allt til að lágmarka kostnaðinn og hámarka gróðann. Krafan sem er á þá er að græða, græða og græða meira: Fjárfestarnir vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð, við viljum græða.

Það er ótrúlegt að þurfa að fylgjast með þessu. Það er ótrúlegt á þessum tímum að fylgjast með því að það eina sem kemur hér frá hæstv. ráðherrum sem stýra í rauninni þessum bankamálum, það er alltaf þetta hjartkæra samtal við bankastjórana: Æ, æ, verið þið nú góð, æ, æ, takið nú þátt í því. Sjáið þið ekki hvað við eigum erfitt núna, æ, æ, æ? En á sama tíma náttúrlega — það var alveg kostulegt, það var kostulegur gjörningur þegar fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson dreif sig í að selja Íslandsbanka í blússandi Covid, á blússandi Covid-tímum. Það lá slíkt á að við vorum í jólafríi og öll umræðan og umsagnir sendar og allt gekk þetta á á meðan við vorum í jólafríi þannig að það var lítið hægt að bregðast við. Þetta var bara komið inn í þingið um leið og við mættum til starfa hér á nýju ári.

Hvað skyldi nú Íslandsbanki vera búinn að græða á þessu ári? Hvað skyldi hann vera búinn að hagnast mikið? Hvað hefðum við fengið í okkar ríkissjóð á því að fá að eiga þessa gullgæs sem verpir endalausum gulleggjum en við megum ekki njóta? Það á alltaf að einkavæða allan hagnað. En ef það er tap þá skal það ríkisvætt. Þá skal það sett á fjölskyldur, heimili og fyrirtækin í landinu. Hver hefur ekki heyrt frasann: Þeir einkavæða hagnaðinn en ríkisvæða tapið. Gamla, góða lumman sem stendur svo sannarlega fyrir sínu. En ég gef lítið fyrir það þegar er verið með einhvern hræðsluáróður um að við ætlum að láta þessa banka axla einhverja smá ábyrgð á því hvernig ástandið er í samfélaginu og skila þó að það væri ekki nema 25% af gróðanum sínum í ríkissjóð, að þeir græði ekki nóg þó að þeir hafi þarna kannski 70 extra milljarða í gróða og þótt þeir myndu borga um 30 milljarða til okkar með hækkandi bankaskatti.

Það vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni að slengja hér skattahækkun, einn, tveir og þrír, á alla fasteignaeigendur þegar hörmungarnar eru að ganga á í Grindavík. Það tók bara einn dag að koma skattinum á þar, bara einn dag þrátt fyrir að við eigum sjóði sem eiga að takast á við hvers lags náttúruhamfarir. Nei, sendum reikninginn á alla Íslendinga eina ferðina enn. Reynum alltaf að koma bakdyramegin enn þá meiri skattpíningu á einhverja skattpíndustu þjóð sem, eins og ég segi, gæti kallast siðmenntuð og kennir sig við réttarríkið. Við í Flokki fólksins erum orðin hundleið á því að sjá hvernig græðgin — þeir safna auði með augun rauð á meðan hina brauðið vantar. Við í Flokki fólksins erum orðin hundleið á því.

Það er löngu orðið tímabært að þessar græðgisstofnanir fari að skila arði til samfélagsins. Íslandsbanki hefur t.d. hagnaðist um 18,4 milljarða það sem af er þessu ári, 18,4 milljarða. Hugsið ykkur, bankinn sem er verið að grobba af og er verið að selja núna tvisvar og fá einskiptisfjármuni inn í efnahagskerfið — einskiptisaðgerðin er að gefa okkur tugi milljarða, frábært — en hann er samt sem áður búinn að græða tæpa 20 milljarða það sem af er árinu.

Við eigum Landsbankann. Íslendingar eiga Landsbankann. Hvers vegna er Landsbankanum ekki beitt í samkeppni inn á þennan markað? Hvers vegna er sama uppskriftin og sama módelið utan um Landsbankann og hina einkavæddu? Hvers vegna fáum við aldrei að njóta ávaxtanna að því sem við höfum lagt til? Þess vegna er íslenskur almenningur alltaf dæmdur undir okur og hokur. Ég segi: Mér þykir dapurt, virkilega dapurt að það skuli enginn nema Flokkur fólksins hér á hinu háa Alþingi sjá ástæðu til þess að sækja ríflegar greiðslur í okkar sameiginlegu sjóði á þessum ömurlegu vátímum sem við erum að glíma við í dag. Og það sér ekkert fyrir endann á þessari verðbólgu, það sér ekki fyrir endann á henni, því miður. Það er bara staðreynd.

Hvað ætlar íslenska ríkið að gera fyrir fólkið sem er að missa heimili sín? Hvað ætlar íslenska ríkið að gera? Ætlar það að kaupa hús handa þeim? Ætlar það að leigja íbúðir fyrir þau eða á að færa bönkunum heimilin okkar á silfurfati eina ferðina enn? Er það meiningin? Bankarnir eru 100% aflögufærir. Bankarnir geta dregið úr álögum á fólkinu. Þú átt ekki að þurfa að verða rukkaður um 5.000 kall fyrir að hnerra einhvers staðar nálægt bankastofnun. Það á ekki að vera svoleiðis. Og hvernig þeir okra á því að rukka enn þá meira en aðrir bankar, norrænir bankar, á inn- og útlánum. Hvað myndu þeir nú segja segja ef við tækjum bara peningana okkar út úr þessum bönkum? Hversu mikið gætu þeir skattpínt okkur og vaxtaokrað á okkur þá? Þeir færu einfaldlega allir á hausinn. Það erum við sem erum viðskiptavinirnir. Það erum við sem höldum þessu græðgisbatteríi gangandi og við ætlumst til þess að okkur sé sýnd lágmarksvirðing og þakklæti og að þeir leggi sitt af mörkum í því erfiða efnahagsástand sem við erum að glíma við í dag og að þeir leggi sérstaklega sitt af mörkum í að verja heimilin og fjölskyldurnar og litlu og meðalstóru fyrirtækin í landinu. Þeim er í lófa lagið að frysta alla vexti. Þeim er í lófa lagið að græða ekki alveg svona mikið. Arion banki er t.d. með hæstu vaxtaprósentuna, en það er engin samkeppni, það eru allir þarna á svipuðum stað. Lífeyrissjóðirnir eru eitthvað örlítið lægri en það geta ekki allir tekið lán þar. Þetta er hreinlega með hreinum ólíkindum.

En hvað um það. Þetta er frumvarp sem kveður á um að sækja fjármuni til bankanna, sem eru miklu aflögufærari í að fá á sig skatt en meðalfjölskyldur í landinu. En eins og ég segi, það vefst ekki fyrir stjórnvöldum hér að koma með alls konar hækkanir og alls konar skatta. Það er allt í lagi svo framarlega sem það lendir á fjölskyldunum í landinu. En að snerta við þessum lánastofnunum, þessum græðgisvæddu bankastofnunum — þetta eru heilagar kýr, virðist vera, heilagar kýr. Það má ekki snerta þetta. Við í Flokki fólksins erum ekki sammála því, eini flokkurinn á þingi. Við viljum bankaskatt. Hann er ekki einu sinni 0,9% en hann gefur okkur heilar 30 milljarða kr. í kassann, hvorki meira né minna.

Það er gaman að nefna það að við höfum líka verið að tala um að við yrðum skattlögð við innborgun í lífeyrissjóðina. Flokkur fólksins hefur ítrekað komið frumvarp um það að við náum í allt að 70 milljarða til viðbótar á ári með því að við yrðum skattlögð við innborgun í lífeyrissjóðina. Já, en þá segja einhverjir að þá muni þeir tapa sem eru búnir að leggja inn, ha. Þá tapa þeir bara þessari skattprósentu frá því að elskulegu lífeyrissjóðirnir okkar geti nú ávaxtað þá fyrir þá, eins og t.d. núna, búnir að tapa 800 milljörðum bara á núll einni á þessu ári. Frábært, er það ekki? Tapa fyrir okkur 800 milljörðum. Þessir sjóðir eiga um 7.000 milljarða, sennilega komið niður í 6.200 núna eftir 800 milljarða tapið. En við þurfum á því að halda að sækja frekar fjármuni þar sem allar hirslur eru fullar fjár og færa það til samfélagsins, styðja við fjölskyldurnar, heimilin, fyrirtækin okkar, halda samfélaginu okkar gangandi. Það er það sem okkur ber skylda til að gera hér á hinu háa Alþingi.

Við eigum ekki að stuðla að vaxandi kvíða og vanlíðan úti í samfélaginu og vaxandi þörf fyrir sálfræðiþjónustu sem ríkisvaldið tímir ekki einu sinni að borga fyrir, tímir ekki einu sinni að setja fjármuni í það sem þingheimur samþykkti, að gefa fólki kost á því sem þess þyrfti. Sérstaklega vorum við að tala um börn á framhaldsskólastigi og bara alla þá sem nauðsynlega þurfa á sálfræðihjálp að halda. Nei, það fylgdu engir peningar með því. Og núna í þessu árferði þá liggur það ljóst fyrir; það er vaxandi þunglyndi, vaxandi kvíði, vaxandi vanlíðan og ótti yfir því hvað verður um mig og fjölskyldu mína núna þegar ég get ekki nema næstu tvo mánuði borgað 500.000 á mánuði af fasteignaláninu mínu.

Náðarfaðmur verðtryggingar, það er það sem er verið að bjóða, að lengja aðeins í hengingarólinni. En það skal alveg sagt: Það er ekkert útlit fyrir að við séum að ná verðbólgu niður, því miður. Hún mældist hvorki meira né minna en 11,5% í síðasta mánuði. Verðbólgan mældist hér í október 11,5%. Það er staðreynd og það er ekkert lát á henni þrátt fyrir að seðlabankastjóri og fjármálastefnunefndin hafi setið á strák sínum í morgun og ekki hækkað stýrivextina. En mikið ofboðslega var erfitt að gera það ekki. Þau langaði rosa mikið að hækka. Rosalega langaði þau mikið til að hækka. En ég segi hér og hika ekki við að segja: Þjóðin er búin að fá nóg af þessu vaxtaokri. Þjóðin er búin að fá nóg af því hvernig er verið að hrifsa af þeim heimilin. Það var bara eftir hrunið 2008 sem 12.000–15.000 fjölskyldur misstu heimili sín. Að hugsa sér, hefur þetta fólk ekkert lært? Ekki neitt? Er þeim bara alveg nákvæmlega sama? 30 milljarða viljum við í Flokki fólksins sækja í græðgisbankana sem eru að skila um 100 milljarða arði á árinu 2023, skiluðu yfir 66 milljörðum í arð á síðastliðnu ári. Þetta eru sko tölur, þetta eru peningar sem maður getur ekki einu sinni ímyndað sér. Ég veit ekki hvort þessir þúsundkallar myndu ekki bara hreinlega fylla þennan sal. Þetta eru peningar á brettum, við skulum gera okkur grein fyrir því, og við viljum að þjóðfélagið fái að njóta, að þjóðfélagið verði tryggt. Við viljum að fjölskyldurnar hætti að vera hræddar um hvað um þær verður.

Það var hrikalegt ástand í Grindavík þegar fólkið var hreinlega rekið út af heimilum sínum vegna yfirvofandi náttúruvár. Að hugsa sér, það átti allt í einu hvergi heima. Það er annars konar vá sem er að skella núna á íslenskum heimilum. Það er ekki út af komandi eldgosi eða blússandi jarðhræringum, það er vegna vanhæfrar ríkisstjórnar. Það er váin sem fylgir því að vera með vanhæfa stjórnendur sem stýra þessari skútu, sem grípa ekki inn í og laga ekki hlutina og girða aldrei fyrir brunninn áður en við erum fallin ofan í hann. Það er alveg með hreinum ólíkindum, eins og fólkið, þessir ágætu hæstv. ráðherrar og þessi ríkisstjórn, hafi ekki lært nokkurn skapaðan hlut, ekki neitt. Það er sárara en tárum taki að við skulum sitja uppi með valdhafa sem vita ekkert hvað þeir eru að gera. Það eru mín skýru skilaboð. Við sitjum uppi með valdhafa sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera. En 30 milljarða frá bönkunum, takk, yfir í ríkissjóð, það er Flokkur fólksins.