154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

378. mál
[18:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, hækkun bankaskatts, hið besta mál. Ef hægt er að ná 30 milljörðum með bankaskatti sem er kannski einn þriðji af gróðanum sem stefnir í þá er það ekki há upphæð í sjálfu sér ef við setjum hana í samhengi við þá stórkostlegu skatta og skerðingar og keðjuverkandi skerðingarstefnu sem hefur verið viðhaldið af ríkinu gagnvart þeim sem eiga að reyna að tóra í almannatryggingakerfinu. Þar eru oft skattar og skerðingar og keðjuverkandi skerðingar sem er ekkert annað en aukaskattur, allt upp undir 100 og jafnvel yfir 100%. Það sýnir ótrúlega óskammfeilni gagnvart þeim sem þar eru. Ég vona heitt og innilega að þessir 30 milljarðar, ef þetta gengur eftir, verði notaðir til góðra verka þannig að það verði hægt að taka á því og ríkisstjórnin gæti notað þá til þess að hjálpa því unga fólki sem núna er skelfingu lostið yfir ástandinu á húsnæðis- og lánamarkaði og greiðslubyrði þeirra.

Það þarf að rannsaka okur á Íslandi. Slík rannsókn er nauðsynleg í ljósi ofsagróða bankanna og okurvaxta á útlánum og hærri þjónustugjalda. Það þarf að taka strax á ofsagróða bankanna og yfirgengilegri græðgi þeirra gagnvart viðskiptavinum bankanna og einnig að koma á lægri útlánsvöxtum og þjónustugjöldum og þá er margt annað í starfsemi bankanna sem vekur upp áleitnar spurningar og þarf svo sannarlega skoðunar við. Það má áætla að þúsundir einstaklinga og fjölskyldur hafi goldið það dýru verði að festast í neti okurvaxta sem níðast á þeim sem höllum fæti standa og höfðu ekkert gert af sér annað en að kaupa sér íbúð í lágvaxtalandinu Íslandi sem fjármálaráðherra og seðlabankastjóri lofsungu hér ekki fyrir svo löngu síðan. Þetta er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð. Það þarf hins vegar að girða vel og vandlega fyrir að slík starfsemi fái þrifist hér á landi. Þá verða stjórnvöld að axla ábyrgð og aðstoða kaupendur með skipulögðum hætti og beita sér markvisst gegn þessu vaxtaokri á húsnæði. Þá væri það alveg óþolandi ef bankar og fjármálastofnanir beita fordæmalausri hörku gagnvart unga fólkinu okkar sem er að missa eignir sínar vegna forsendubrests og afborgana á lánum sínum sem hafa jafnvel meira en tvöfaldast á stuttum tíma.

Við í Flokki fólksins og Hagsmunasamtök heimilanna höfum háð baráttu gegn þessum forsendubresti og þeim alvarlegu áhrifum sem þessi gífurlega hækkun á húsnæðislánum hefur haft á líf einstaklinga og fjölskyldna sem lenda í skuldavanda vegna hennar. Bankar og fjármálastofnanir eiga ekki að vera eins og lýs og flær sem geta lifað á fólki og sogið allt fjármagn úr vasa fólks með tilheyrandi leiðindum og óþægindum, haga sér eins og sníkjudýr sem sýgur til sín allt fjármagn fólks. Það verður að stöðva. Það verður að hrista af fólki þessar fjársugur. Í Harry Potter er talað um vitsugur en hér á Íslandi í nútímanum erum við með fjársugur sem eru ekkert annað en lýs og flær sem þarf að hrista af sér. Það er alveg með ólíkindum að við skulum láta það yfir okkur ganga að þurfa að borga, þeir sem trúðu því að þeir byggju í lágvaxtalandinu Íslandi. Hugsið ykkur, þeir fóru til bankanna eða lífeyrissjóða og ætluðu að kaupa sér hús og fóru í greiðslumat, náðu kannski rétt að standast greiðslumat til að kaupa sér íbúð, tóku 30–40 millj. kr. lán til jafnvel 40 ára og áttu að borga af því kannski 200.000 kr. á mánuði, en allt í einu byrjaði lánið að hækka. Það hækkaði kerfislega í þrettán eða fjórtán skipti í röð og endar ekki í 400.000 kr. heldur rúmlega 400.000 kr. á mánuði.

Ég ræddi þetta við erlendan aðila og ég var að reyna að útskýra fyrir honum hvernig umhverfið á Íslandi væri í húsnæðismálum. Hann vildi ekki trúa mér, þetta gæti ekki átt sér stað. Hann sagði einfaldlega að ef þetta væri að ske einhvers staðar í Evrópu og sérstaklega í hans landi myndi landið verða allt lamað á stundinni, þeir myndu aldrei nokkurn tíma leyfa því að viðgangast eða láta bjóða sér það að lán til 40 ára sem væri búið að skrifa undir og fá greiðslumat fyrir gæti farið úr 200.000 kr. í 400.000 kr. og jafnvel upp í 500.000 kr. Og að það skuli vera hægt að setja það þannig upp að fólk sé bara að borga 10.000 kr. upp í lánið sjálft en 490.000 kr. í vexti — þetta er okur. Þetta er ekkert annað en okurstarfsemi. Það bara á ekki að vera hægt að gera þetta. Það getur ekki verið löglegt, það er alveg gjörsamlega útilokað. Þetta er algjör forsendubrestur gagnvart fólki sem trúði því statt og stöðugt að það væri að eignast sína íbúð og gæti þar af leiðandi staðið við sínar skuldbindingar en kemst svo að því að þetta var allt saman svindl og ekkert annað en svindl. Síðan þarf þetta fólk núna að reyna að losa sig við íbúðir sínar, leigja þær eða selja til þess að bjarga sér frá því að verða ekki hreinlega gjaldþrota. Og hvað gerir ríkisstjórnin? Ekkert. Hvað gera bankarnir? Jú, þeir eru tilbúnir að lengja í hengingarólinni, skuldbreyta yfir í verðtryggingu til að ná hverri einustu krónu af viðkomandi á næstu árum.

Ég verð bara að segja alveg eins og er að þessa 30 milljarða sem við erum að reyna, með þessu frumvarpi, að ná út úr bankakerfinu þyrfti helst að nota til að hjálpa þessu unga fólki. Það þarf einhvern veginn að stöðva þetta og það þarf að gera strax. En það er víst ekki mikil von um það. Maður heyrir að seðlabankastjóri talar um að spóla í hálku. Mér sýnist hann hefði viljað helst spóla stýrivextina hærra upp en einhverra hluta vegna held ég að hann hafi bara ekki þorað það. Hann hefur þá einu trú og þá einu getu sem eru stýrivextirnir.

Það er nefnilega svolítið furðulegt þegar maður fer að hugsa aftur í tímann þegar við byrjuðum að benda á að verðbólgan væri komin af stað og þá var hún ekki nema 2,7%, þá kom þáverandi fjármálaráðherra, hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson, og sagði: Við höfum fullt af lausnum til að takast á við verðbólguna og við höfum engar áhyggjur. Þetta sagði líka seðlabankastjórinn á þessum tíma. Engar áhyggjur, fullt af lausnum. Hverjar eru lausnirnar? Höfum við séð þær? Það er bara ein, að hækka stýrivexti og níðast á þeim sem síst skyldi, ungu fólki sem var í góðri trú um að það væri að eignast sína íbúð og var tilbúið til þess að borga 200.000 kr. á mánuði næstu 40 árin, en sér fram á það núna að það á ekki nokkra möguleika á að borga 450.000 kr. og jafnvel 500.000 kr. á mánuði eins og staðan er í dag. Þess vegna styð ég heils hugar að við förum út í það að skattleggja bankana.

Við erum líka að benda á það að við erum með svolítið skrýtið kerfi. Horfum t.d. á lífeyrissjóðina. Hvað gera lífeyrissjóðirnir kröfur um? Jú, 3,5% ávöxtun. Hvað er reiknað með að ávöxtun einstaklings í lífeyrissjóðunum standi í langan tíma? Jú, 40–50 ár. Ávöxtun lífeyrissjóðanna, eins og við höfum sýnt, sveiflast til og frá en að jafnaði hafa þeir haldið þessari ávöxtun. Þá væri alveg kjörið, held ég, og ætti að vera algerlega hægt að búa til þannig umhverfi að við tækjum húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, gerðum það þannig að við gætum fest t.d. vexti í 3,5% og það væri hægt að tryggja að þessir vextir myndu verða næstu 40 árin. Ég held að þetta sé bara útfærsludæmi sem þarf einhvern veginn að taka á og við eigum að geta þetta. Við eigum að geta tekið á svona málum alveg eins og allar aðrar þjóðir, eina sem þarf er vilji. En ég held að það sé enginn vilji hjá þessari ríkisstjórn og enginn vilji hjá Seðlabankanum og eini viljinn virðist vera, vil ég meina, að reglulega mergsjúga fólk inn að beini, hirða af því eignirnar og hirða af þeim allan sparnaðinn því við verðum líka að muna það og við megum ekki gleyma því að þetta unga fólk er að setja séreignarsparnaðinn sinn inn í þetta kerfi líka. Það er verið að hirða af því séreignarsparnaðinn. Það er búið að sannfæra það um að með því að setja séreignarsparnaðinn sinn inn í þetta væri það sko að græða þvílíkt. Það er ekki svo. Þetta er algjör hryllingur og þetta eru, eins og ég sagði, eins og lýs og flær sem eru að sjúga út úr fólki allt fjármagn, allan lífsvilja og það endar bara með skelfingu, fólk brennur yfir. Þeir einu sem bera ábyrgð á því eru ríkisstjórnin og Seðlabankinn.