154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf.

408. mál
[19:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir framsöguna og ágætisumræður hér í andsvörum. Hér er tillaga til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Þetta er mjög áhugavert mál og mér fyndist það mjög til bóta ef það yrði gert lýðheilsumat á stjórnarfrumvörpum. Hér er lagt til að skipaður verði sérfræðihópur sem leggi til leiðir sem tryggi rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi og hópurinn skili stöðuskýrslu fyrir 1. maí næstkomandi. Það er fjallað um að það sé gert mat á jafnréttissjónarmiðum og umhverfismat — mér finnst þetta með umhverfismatið annars eðlis, lög um umhverfismat, það er einhver stofnun sem sér um það, það er ekki umhverfismat frumvarpa. Svo erum við náttúrlega með mat fjármálaráðuneytisins á útgjöldum. En þetta er mjög gott mál og sjálfsagt að meta jafnréttissjónarmið. Mér finnst lýðheilsusjónarmiðið alveg gríðarlega mikilvægt og tek sem dæmi að við erum feitasta þjóð í Evrópu, ef ekki bara innan OECD, og það eru gríðarlega alvarlegir og miklir sjúkdómar sem fylgja því og við erum ekki með sykurskatt eins og önnur Norðurlönd. Líka það að ADHD-lyf eru hérna brudd eins og enginn sé morgundagurinn. 15% drengja 10–14 ára eða 15 ára taka ADHD-lyf miðað við 5% tæplega í Noregi. Væri ekki rétt að Lýðheilsustofnun sæi bara um þetta mál eða landlæknisembættið þar sem er búið að færa Lýðheilsustofnun undir landlæknisembættið? Væri ekki rétt að landlæknisembættið sæi um þetta mat á stjórnarfrumvörpum? Það væri langeinfaldast.

Það væri líka gott að heyra frá hv. þingmanni varðandi Finnland, þeir eru með þessa rýni á lagafrumvörpum, þau eru sérstaklega metin út frá áhrifum þeirra á lýðheilsu, (Forseti hringir.) hvort hann viti nánar hvernig þetta verklag er í Finnlandi varðandi matið á stjórnarfrumvörpum þar.