154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:51]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um að við höfum lítið að gera. Ég finn það ekki í mínum nefndum. Það er alveg brjálað að gera, til að mynda í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar skortir okkur tíma til að fjalla um málin. Það er líka verið að tala um að málin séu svo illa unnin sem koma inn að við þurfum að breyta þeim og bæta þau — svona virkar bara lýðræðið. Við erum að vinna málin og koma með okkar áherslur. Við erum að kalla fyrir gesti og búum þannig um eins og best við getum. (Gripið fram í.) Það er virkilega verið að vinna þessi mál og ég veit ekki hvað er verið að tala um þegar er sagt að það vanti. Aftur á móti varðandi þingmannamálin þá hefur þeim fjölgað gríðarlega í gegnum árin og kannski þurfum við að taka samtal um hvernig við getum búið um það. Það eru mörg mál sem eru góð, bæði frá minni hluta og meiri hluta, og afgreiðslan er sama á málum frá meiri hluta og minni hluta, þau komast sjaldan að. Við þurfum kannski að ræða hvernig við getum búið um þetta betur í framtíðinni, hvort við getum afgreitt fleiri mál eða unnið þau jafnhliða þeim málum sem koma frá ríkisstjórn.