154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hérna upp og leiðrétta nokkra hluti sem fram hafa komið. Í fyrsta lagi vil ég andmæla því að við þurfum eitthvert nýtt verklag þegar kemur að þingmannamálum, eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir var að leggja til hérna. Við þurfum bara að fara eftir þingsköpum, við þurfum bara að fara eftir starfsreglum fastanefnda Alþingis og setja mál á dagskrá þegar flutningsmaður óskar eftir því, þegar framsögumaður þeirra í nefndum óska eftir því. Þannig eru reglurnar og einu sinni voru þær virtar. Það er þessi ríkisstjórn með sín andlýðræðislegu vinnubrögð sem neitar okkur um að setja mál á dagskrá, þvert á reglur þingsins, þvert á þingsköp. Það skrifast á hæstv. stjórnarmeirihlutann. Þannig er það nú bara. Þetta er nýleg þróun, þetta hefur ekki alltaf verið svona þann tíma sem ég hef verið hér.

Síðan varðandi það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði hérna áðan, að það hafi ekki verið mikið um fundarfall í nefndum sem hún situr í. Það vill svo til að við sitjum sömu nefndum og í efnahags- og viðskiptanefnd (Forseti hringir.) hefur verið fundarfall annan hvern fund í mánuð núna, þannig að vissulega hefur verið töluvert um fundarfall í efnahags- og viðskiptanefnd sem ætti að vera að einbeita sér að efnahagsástandinu en er að gera eitthvað allt annað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)