154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:58]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Mér þykir þetta vera athyglisverð umræða fyrir mig sem nýjan þingmann að læra hér inni á þingi. Hér dælast inn þingmannamál dag eftir dag í gegnum 1. umræðu. Þau fara síðan í nefnd og fást ekki einu sinni rædd. Mér þykir það ankannalegt að verklag og vinnubrögð á Alþingi séu með þessum hætti. Ég velti líka fyrir mér hvað þingmálaskrá þýðir í raun og veru. Þetta minnir mig bara á óskalista sem börnin mín létu mig hafa í aðdraganda jóla. Þau settu kannski niður óskalista með 15–20 atriðum um hvað þau langaði að fá í jólagjöf og yfir þennan óskalista þyrfti ég að fara. En niðurstaðan varð síðan sú að þau fengu bara eina gjöf. Fyrir mér lítur þingmálaskrá þannig út að menn leggja fram einhverja svakalega málaskrá sem fæst síðan ekki uppfyllt, þannig að flestir ráðherrar fara greinilega jólaköttinn.