154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[11:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Síðan ég tók sæti á þingi, árið 2015 líklega, hefur verið allur gangur á því hversu mikið er fjallað um þingmannamál og auðvitað er það alltaf þannig að maður myndi helst vilja fá sín mál samþykkt, enda held ég að við leggjum okkur fram um að leggja fram mál sem okkur finnst góð. En ég get ekki séð að þarna hafi orðið einhver stórkostleg breyting á. Ég vil bara aftur koma hér upp og mótmæla því að ríkisstjórnin sé ekkert að gera til að hugsa um hag fólksins hér í landinu. Þetta er endurtekið sí og æ meðan staðreyndin er sú að hér er verið að leggja fram fjárlög sem eru til þess gerð að reyna að ná tökum á verðbólgunni. Það getur alveg verið að einhverjir myndu vilja ganga lengra eða skemur í einhverjum málum, það er bara eins og pólitíkin er, en að tala eins og það sé ekkert gert er einfaldlega ekki rétt. Svo vil ég minna á þær aðgerðir, sem hefur verið farið í (Forseti hringir.) til að koma sérstaklega til móts við örorkulífeyrisþega, sem er sá hópur (Forseti hringir.) sem hefur það hvað verst, eru einmitt aðgerðir til að koma til móts við illa stæðan hóp og þær skipta máli og þær á að tala upp en ekki niður.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á ræðutímann sem er aðeins ein mínúta þegar þingmenn taka til máls um fundarstjórn forseta. )