154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

áætlanir um viðbrögð við náttúruvá.

[11:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það reynir á samstöðu og samtakamátt þjóðarinnar og þingsins líka núna þegar það ríkir neyðarástand í Grindavík og auðvitað ríkisstjórnarinnar líka. Hún þarf að stíga fram af festu og koma með plan fyrir fólkið okkar í Grindavík sem upplifir þungt högg og lifir við gríðarlega óvissu. Við eigum að hlusta á það sem m.a. bæjarstjórann í Vestmannaeyjum sagði í merkilegu viðtali í gær, það skiptir máli að eyða m.a. strax fjárhagslegri óvissu og koma með lausnir og leiðir til að taka vel utan um einmitt íbúa Grindavíkur í þessu. Við þurfum auðvitað að horfa á skammtímalausnir en ég viðurkenni það líka að það er tilhneiging okkar í Viðreisn að vera svolítið með langtímaplan og óska eftir langtímaplönum. Við stöndum frammi fyrir jarðhræringum og eldsumbrotum og við erum búin að upplifa það í þrjú ár. Það er hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að vera ekki betur undirbúin, ég ætla ekki að gera það hér, en jarðfræðingar hafa auðvitað dregið fram ýmsar sviðsmyndir, m.a. af Krýsuvíkursvæðinu, Henglinum, Mýrdalsjökli, þannig að við erum að sjá það að á næstu árum og jafnvel áratugum gætum við hugsanlega upplifað náttúruhamfarir og hugsanlega enn verri heldur en þær sem íbúar Grindavíkur eru að upplifa núna.

Við í Viðreisn höfum lagt okkur fram um að reyna að ná þverpólitískri samstöðu í erfiðum málum, útlendingamálum, og ég þakka fyrir jákvæð viðbrögð ráðherra hvað það varðar. Við höfum komið fram með tillögu, m.a. út af Gaza, sem gat sameinað þingið hér. En ég er ekki að segja að við eigum að leggja pólitískan ágreining til hliðar. Hann er nauðsynlegur fyrir lýðræðissamfélag. Við eigum að geta deilt um pólitík. En er ráðherra ekki sammála mér um það að þessir atburðir í Grindavík og hugsanlega síðar á Reykjanesinu eða annars staðar kalla á samheldni þjóðar, kalla á samheldið þing? (Forseti hringir.) Getur ráðherra verið sammála mér um að það sé mikilvægt að leggja fram áætlun og plan sem lifir af ríkisstjórnir (Forseti hringir.) af því að við erum að fara að horfa upp á hugsanlega gríðarlega fjármuni til næstu ára og áratuga? Þá þurfum við plan sem stenst og lifir ríkisstjórnir. Getur ráðherra deilt þessari skoðun minni?