154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[11:43]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Landhelgisgæsla Íslands er stolt okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, eyríkis í Atlantshafi. Hún er flaggskip almannaöryggis á Íslandi og það birtist okkur m.a. í núverandi hamförum á Reykjanesskaga þar sem Gæslan er með mönnun í samhæfingarmiðstöðinni allan sólarhringinn, með þyrlur á staðarvakt, tilbúnar til að aðstoða við björgun, og með varðskip staðsett fyrir utan Grindavík svo hægt sé að aðstoða við rýmingu frá sjó.

Öryggismálin í umsjá Landhelgisgæslunnar teygja sig víðar. Við sem eyríki erum háð umheiminum í gegnum hinar ýmsu tengingar. Hér eru fjarskiptastrengir milli landa og það er í okkar verkahring að fylgjast með öryggismálum í okkar stóru landhelgi sem við börðumst ötullega fyrir. Siglingaöryggi byggir á sterkri landhelgisgæslu. Það er nefnilega frumskylda okkar að geta tryggt öryggi fólks sem starfar við fiskveiðar hér á landi, þessa mikilvægu útflutningsgrein. Við þetta hefur síðan bæst ný áskorun sem er þjónusta við skemmtiferðaskip við strendur Íslands. Við megum heldur ekki vera svo blaut á bak við eyrun að halda að spenna í alþjóðamálum rati ekki hingað inn. Fyrir ekki svo löngu síðan varð alvarlegt atvik í Eystrasaltinu þegar flutningaskip tók þar í sundur fjarskiptastreng, en þar var ekki um óhapp að ræða. Af hverju nefni ég þetta, hæstv. forseti? Jú, vegna þess að forsenda þess að við getum sinnt umræddu siglinga- og fjarskiptaöryggi sem og öryggismálum á tímum náttúruhamfara er að Landhelgisgæslan hafi yfir að ráða tækjakosti og rekstrarfjármagni til að sinna slíkum verkefnum. Landhelgisgæsla á eina flugvél, TF-SIF, sem er sérútbúin til að sinna slíkum öryggismálum en líkt og með annan búnað sem Gæslan státar af hefur henni fylgt takmarkað rekstrarfé. Því hefur hún verið leigð út í verkefni utan landsteinanna meiri hluta ársins til að fjármagna annan rekstur hér heima. Fyrrum dómsmálaráðherra ætlaði að ganga svo langt að selja flugvélina til að dekka rekstrarhalla Landhelgisgæslunnar og bar m.a. fyrir sig að vélin væri hvort sem er lítið á landinu.

Hæstv. forseti. Við þurfum að ákveða hvers konar þjóð við viljum vera og hvaða kröfur við gerum til öryggismála hér á landi. Það er alþekkt að kostnaður er hlutfallslega hærri meðal smáþjóða við hin ýmsu nauðsynlegu verkefni miðað við stærri þjóðir. En hér búum við og hér á þessi þjóð heima, fámennt samfélag í stóru landi með heljarinnar landhelgi sem við viljum valda. Það er okkar skylda að búa svo um hnútana að við getum staðið vörð um grunnöryggi í landinu. Á því byggir sjálfstæði okkar. Við erum í varnarbandalagi og það er gott svo langt sem það nær, en við þurfum að sinna öryggismálum innan okkar eigin landhelgi. Þegar fallið var frá sölu á TF-Sif á fyrri hluta þessa árs eftir mikil mótmæli var ljóst að meira þyrfti að koma til inn í rekstur Landhelgisgæslunnar til að loka rekstrargatinu. Á yfirstandandi ári er halli Gæslunnar 236 millj. kr. sem á að bæta núna upp í fjárauka. Eftir standa þá 364 millj. kr. vegna uppsafnaðs halla áranna áður og á næsta ári vantar 700 millj. kr. til að halda óbreyttri starfsemi milli ára, starfsemi sem er þá undir því sem forsvarsmenn stofnunarinnar telja nauðsynlega.

Þá vil ég nefna annað mikilvægt öryggismál á Íslandi sem er háð sterkri landhelgisgæslu og það er staða sjúkraflutninga í landinu. Ein af tillögum okkar í Samfylkingunni, sem fleiri flokkar taka undir, er að bæta við björgunar- og sjúkraþyrlu á Norðausturlandi til að stytta viðbragðstíma og fjölga um leið áhöfnum til að sinna betur Vestur- og Suðurlandi. Slík viðbót mundi styrkja sjúkraflutninga í landinu til muna og enn fremur viðbragðsgetu í björgun um allt land. En það er alveg ljóst að undir núverandi stjórnarfari er þetta ómögulegt, forseti. Aðhaldskröfur hafa nefnilega þurrkað upp launa- og verðlagsbætur hjá Landhelgisgæslunni. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að staðan hjá Landhelgisgæslunni sé alvarleg og sagt, með leyfi forseta: „Það liggur alveg fyrir að það þarf að koma aukið fjármagn eða það þyrfti að selja flugvél, skip eða þyrlu.“

Ég vil því hefja umræðuna í dag með því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar ráðherra að gera í stöðunni? Verður rekstur Landhelgisgæslunnar styrktur til að tryggja öryggi í landinu? Hvað hefur ráðherra að segja við þeirri niðurstöðu fjármálaráðuneytisins sem hefur birst bæði í 1. og núna í 2. umræðu fjárlaga, að ekki verði fallið frá aðhaldskröfu á Landhelgisgæsluna á komandi ári? Hvernig má vera að aðeins 100 millj. kr. fjárfestingarheimildir séu til staðar til að sinna 20 milljarða tækjakosti hjá Landhelgisgæslunni? Og verður annars gripið til þess ráðs, ef ekkert verður að gert, að selja flugvél, þyrlu eða skip?