154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[11:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Landhelgisgæslan gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki hér á Íslandi og þess vegna er undirfjármögnun hennar, vanfjármögnun, gríðarlega mikið áhyggjuefni. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál sem hefur m.a. leitt til þess að Landhelgisgæslan reynir að afla sér fjár á alls konar misjafna vegu, t.d. með því að leigja út flugvélina sína sem við þurfum á að halda hér á landi til að sinna eftirliti á efnahagslögsögu Íslands. Þetta er sú vél sem best getur sinnt þessu eftirliti, sem getur farið út á úthöfin, sem getur fylgst með veiðum erlendra skipa í okkar lögsögu, sem getur fylgst með hvort mengunarslys hafa orðið á hafi, og sú vél er að stórum stofni til erlendis á vegum Frontex. Það er til þess að afla Landhelgisgæslunni tekna. Það er ekki leið fyrir okkur til að vernda sjófarendur og okkar efnahagslögsögu að gera þetta að tekjulind fyrir Landhelgisgæsluna, sem fær ekki nægjanlegt fjármagn frá ríkisstjórninni til að sinna sínum mikilvægu verkefnum. Þetta gerir það líka að verkum að við erum ekki að standast okkar alþjóðlegu skyldur þegar kemur að eftirlitssvæðinu sem Landhelgisgæslan á að hafa eftirlit með. Það setur okkur í þá stöðu að það er líklegt að við gætum misst hluta af því eftirlitssvæði sem við höfum fengið í okkar hlut að sinna vegna þess að við stöndumst einfaldlega ekki þær kröfur sem þarf upp á öryggi.

Mig langar líka aðeins að minnast á bæði mönnun Landhelgisgæslunnar, sem hefur ekki verið fullnægjandi til að halda úti viðvarandi vakt, og sömuleiðis búnaði björgunarmanna í þyrlum og í flugvélum sem er ekki fullnægjandi. Það vantar betri klæðnað á Landhelgisgæsluna til að standa t.d. að björgun á hálendinu. Þegar við getum ekki sinnt grunnþörfum björgunarmanna á flugvélum Landhelgisgæslunnar og þyrlum þá er eitthvað mikið að, virðulegi forseti.