154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:06]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir sína framsögu í þessu máli. Hv. þingmaður orðaði það með þeim hætti að þetta talar inn í okkar samtíma og ég er því alveg hjartanlega sammála. Þetta talar ekki bara inn í okkar samtíma heldur líka inn í mitt pólitíska hjarta. Mér finnst málið gott, ég verð bara að segja það, þó að ég sé ekki á því en get vel stutt það og mun alveg sjálfsagt gera það af heilum hug.

Greinargerðin með málinu er mjög góð. Það er vel farið yfir hvernig þessu er háttað annars staðar á Norðurlöndunum. Ég sé reyndar að það er misjafnt hvaða orð eru notuð, þ.e. gjaldfrjálsar eða ókeypis, og ég er nú hrifnari af því að það sé notað gjaldfrjálsar vegna þess að einhvers staðar koma fjármunirnir. Þetta kostar vissulega þótt markmiðið sé mjög gott. Ég man eftir því að í meistaranámi mínu var talað um að mestu mistök sem stjórnendur fyrirtækja gera er að spara í mötuneytum sínum vegna þess að það hefur þau áhrif að starfsfólk fer út úr fyrirtækjunum til að ná sér í mat. Það tekur tíma. Fólk er óánægt og fer að tala um þetta í störfum sínum. Það má vel yfirfæra þetta, eins og er reyndar ágætlega farið yfir í greinargerðinni, yfir í hvaða áhrif það hefur á börnin okkar og ungmenni að fá staðgóðan hádegisverð eða máltíð og hvaða áhrif það hefur á allan skóladaginn og líf og heilsu barna. Ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða og styð heils hugar þessa vinnu.

Hér eru tiltekin nokkur sveitarfélög þar sem þetta er við lýði, sem er bara gott og hið besta mál, og ég man nú eftir því að í fyrsta skipti sem ég bauð mig fram í sveitarstjórn eða bæjarstjórn Hafnarfjarðar þá var þetta eitt af þeim málum sem við settum efst á okkar stefnuskrá og við héldum því bæði árið 2014 og 2018 þegar við loks komumst inn í bæjarstjórn í Hafnarfirði og fórum þar í meiri hluta. Þá var þetta auðvitað eitt af þeim málum sem við reyndum að semja um og þar kom að þessum málamiðlunum sem þarf oft að gera og við þekkjum ágætlega héðan líka. Þá var farin sú leið að fara sömu leið og með leikskólagjöldin, það var innleiddur systkinaafsláttur. Mér fannst það nú vera nokkuð stórt skref. Þá var aldrei greitt fyrir meira en þrjú börn, það var fyrsta skrefið, fullur afsláttur. Svo aldrei greitt fyrir meira en tvö börn, held ég að ég muni rétt, og svo var tekið næsta skref á síðasta ári kjörtímabils þar sem var veittur 25% afsláttur fyrir annað barn þannig að hámarksgreiðsla í Hafnarfirði er 1,75 barn. Það er kannski rétt að nota þau orð að þetta eru lítil skref en þau skipta samt máli.

Ég man líka eftir því að það var farið í mikla vinnu við útboð á máltíðum í mínu góða sveitarfélagi og lögð mikil vinna í það og gaman að segja frá því, þó að maður fari aðeins út af veginum varðandi þetta mál, að ég held að Hafnarfjörður hafi verið fyrsta sveitarfélagið sem gerði kröfu um að það yrði verslað með íslensk matvæli, sem ég tel auðvitað skynsamlegt og allir ættu að sjálfsögðu að gera. En það var líka önnur nýbreytni í því sveitarfélagi og hún er sú að börnum og starfsfólki stendur til boða frí morgunhressing, hafragrautur í boði fyrir bæði nemendur og starfsfólk grunn- og leikskóla, ég held að leikskólarnir séu alveg örugglega þarna inni.

En hvað um það, mér finnst málið gott og ég styð það algjörlega að mennta- og barnamálaráðherra útfæri þessa vinnu. Ég sé það líka í greinargerðinni, varðandi umgjörðina annars staðar á Norðurlöndunum, að hún er auðvitað æðimisjöfn. Ef við tökum sérstaklega umgjörðina í Svíþjóð þá er það eitthvað sem þarf að ræða, umfangið í þessu. Við sjáum hvað þetta nær langt aftur, það er 1946 sem þessi umræða er tekin í Svíþjóð um að ríkið komi til móts við sveitarfélögin með einhvers konar ríkisstyrkjum til að sveitarfélögin geti innleitt hjá sér gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Ég held að niðurstaðan úr þessari vinnu væri alltaf sú að ríkið þyrfti að vera með einhvers konar aðkomu að þessum málum til að þetta myndi hreinlega nást fram og að um þetta yrði að vera einhver samstaða á milli ríkis og sveitarfélaga.

Við sjáum það líka, eins og reyndar kemur fram, að hér er um að ræða jafnræðismál, og ég veit að það er tilgangur þeirra sem að þessu máli standa. Það er bara því miður þannig og ég held að við sem höfum starfað á vettvangi sveitarstjórna höfum heyrt af því frá starfsfólki og stjórnendum að það eru oft þung skref fyrir þá foreldra eða aðstandendur sem geta ekki greitt hádegisverð eða skólamáltíð fyrir sín börn að leita til félagsþjónustu eða velferðarsviðs sveitarfélaga og því miður ekki gert í öllum tilfellum sem verður svo til þess að tiltekið barn fær ekki þá næringu sem við viljum tryggja að öll börn fái. Bara það sjónarmið finnst mér skipta alveg gríðarlega miklu máli, út frá þessum jafnræðisvinkli, að við séum að ná að feta okkur á þá braut að öll börn — við tölum oft um jöfn tækifæri en að öll börn hafi líka jafnan aðgang að næringarríkum máltíðum og ég held að það skipti máli og muni skila sér.

Við erum alltaf að tala í öllum okkar málum um krónur og aura og fjármuni og ég er þess alveg fullviss að þetta muni skila sér með öðrum hætti til baka til samfélagsins með bættri líðan nemenda, bættri lýðheilsu og ég tala nú ekki um og leyfi mér að bæta því, bættum námsárangri nemenda. Ég held að þetta haldist svolítið í hendur. Ef krökkum og ungmennum líður vel þá skilar það sér inn í allt annað. Ég held að við sem hér sitjum á Alþingi og þau sem sitja í sveitarstjórnum eigum að huga svolítið að þessum þætti. Ef ég man rétt, ég ætla nú ekki að fara með neinar tölur, þegar við vorum að útfæra þetta í Hafnarfirði á sínum tíma, þá voru það upphæðirnar sem stóðu í mörgum en þegar á hólminn var komið og tölurnar birtust frá fjármálasviði sveitarfélagsins þá voru þetta nefnilega ekkert stórar upphæðir. Þetta eru tiltölulega litlar upphæðir sem við erum að tala um. En auðvitað eru þetta peningar, ég er ekki að halda öðru fram, en ég held að við séum að mikla það svolítið fyrir okkur hvað þetta kostar. Auðvitað er þetta breytilegt eftir sveitarfélögum. Útboð skólamáltíða á vegum sveitarfélaga eru auðvitað misjöfn, hvort sem verið er að versla við fyrirtæki sem sjá um þetta og dreifa um sveitarfélögin eða hvort tilteknir skólar, og það eru þá væntanlega oft í minni sveitarfélögum, eru með eldhús hjá sér þar sem máltíðirnar eru eldaðar frá grunni. Það þarf að skoða svolítið heildarmyndina og þess vegna fagna ég allri þessari vinnu.

Ég ætla bara að þakka flutningsmönnum og þeim sem eru hér á þessu blaði fyrir að koma með þetta fram. Líkt og ég sagði í upphafi þá mun ég styðja þetta mál af heilum hug vegna þess að þetta talar inn í mitt pólitíska hjarta og hefur verið mitt hjartans mál frá því að ég hóf störf í stjórnmálum.