154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég þakka þessa áhugaverðu umræðu hér og tillagan sem liggur fyrir er að mörgu leyti áhugaverð. Ég vil kannski nefna það að ég bý í sveitarfélagi sem var frumkvöðull í gjaldfrjálsum skólamáltíðum, Sveitarfélaginu Vogum á Vatnsleysuströnd, og ég sakna þess svolítið að það skuli ekki vera minnst á það sveitarfélag í þessari tillögu vegna þess að það sveitarfélag var það fyrsta á landinu sem tók upp gjaldfrjálsar skólamáltíðir og það var árið 2006. Ég átti á sínum tíma drengi í Stóru-Vogaskóla og þeir nutu þess að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir og ég held að reynslan af því hafi verið góð og almennt held ég að skólastjórnendur í sveitarfélaginu líti svo á að þetta hafi tekist vel og búið að vera allan þennan tíma. Þetta var ákvörðun sveitarstjórnar á sínum tíma og skólastjórnendur náttúrlega hafa fylgt þeirri ákvörðun eftir, svo það sé sagt hér. Þannig að það er gott líka að leita í smiðju þeirra sem hafa sinnt þessu um langan tíma.

Mér fannst líka athyglisverð ræðan hjá hv. þm. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni þegar hann lýsti því hvernig fyrirkomulagið væri í Svíþjóð þar sem hann var m.a. í grunnskóla, það var athyglisvert að heyra það sjónarmið. Það eru jú dæmi þess, ég held að það sé búið að gera einhverjar kannanir á því, og ég held að reynslan erlendis bendi til að tilhneiging sé til að ekki séu sömu gæði matarins þegar um gjaldfrjálsar máltíðir er að ræða og það eru einnig dæmi um að matarsóun hafi aukist, eða vísbendingar um það.

En af því að hér er minnst á næringarþáttinn þá kannski má segja að það er á Suðurnesjum, eða í Reykjanesbæ, mjög öflugt fyrirtæki á þessu sviði sem heitir Skólamatur, framleiðir um 15.000 máltíðir á dag og keyrir hér í skóla á öllu höfuðborgarsvæðinu, alveg frá Suðurnesjum og upp í Mosfellsbæ, og hefur 190 starfsmenn. Ég hef skoðað þetta fyrirtæki og er ansi vel búið að þeirri starfsemi og ég veit til þess að þeir gera þjónustusamninga við sveitarfélögin og vinna eftir næringarstaðli landlæknisembættisins, þar sem m.a. er fjallað um umhverfisþáttinn líka. Þetta hefur gefist vel og það er mikil ánægja, veit ég, með framleiðslu þessa fyrirtækis og þeir hafa á sínum snærum næringarfræðing og matvælafræðing, þannig að það er mikill metnaður í þessum máltíðum sem þeir eru að dreifa í mjög marga skóla. Ég held því að við þurfum ekkert að óttast það að næringarþátturinn verði ekki í lagi þegar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir er að ræða. En í flestum tilfellum er það þannig að sveitarfélögin semja við ákveðna aðila um að framleiða matinn og það er auk þess náttúrlega gott líka hafa fleiri kerfi, ef svo má orða það, að sumir skólar elda matinn á staðnum og það sýnir náttúrlega breiddina í þessu.

Mér finnst ágætt hjá flutningsmönnum hér að fjalla um stöðuna eða hvernig staðan er á Norðurlöndunum. Mér fannst áhugavert að lesa það hér og það kemur svo sem ekki á óvart að það séu ekki svona máltíðir í Noregi, þeir eru náttúrlega með sín nestisbox eins og við vitum. Ég bjó t.d. í Bandaríkjunum um tíma og þar var ég með einn ungan pilt í grunnskóla og ég verð að segja að það var ekki næringarríkur matur þar, það voru bara pítsur og franskar alla daga, held ég, og svo var alltaf ís í eftirrétt. Það er nú svo sem ekki til eftirbreytni.

Ég tók eftir því sem kemur hér fram á blaðsíðu 3 í greinargerðinni þar sem fjallað er um sjónarmið dýravelferðar og minni kjötneyslu. Ég er náttúrlega fylgjandi því að við neytum okkar landbúnaðarvara og þar með okkar góða lambakjöts og alifuglakjöts og hérna eru allt heilnæmar vörur þannig að ég styð heils hugar að það verði lögð áhersla á að bjóða upp á íslenskar landbúnaðarvörur í skólum og ef raunin verður sú að þessi tillaga verði samþykkt þá verði gjaldfrjálsar máltíðir. Ég held að það sé alveg rétt sem kemur fram þegar rætt er um augljósan ávinning að það sé samfélagslegur ávinningur af daglegum og gjaldfrjálsum næringarríkum skólamáltíðum. Það er góður kostur við gjaldfrjálsar skólamáltíðir, dregur úr því að börn frá efnaminni fjölskyldum séu sett eitthvað til hliðar í skólamáltíðunum og náttúrlega styður þær fjölskyldur. Það er engin spurning.

Það er líka athyglisvert sem kemur fram um skýrslu norskra heilbrigðisyfirvalda um áhrif endurgjaldslausra skólamáltíða. Það kemur m.a. fram að jákvæð áhrif megi greina með tilliti til bættrar næringar, betri námsárangurs og mætingar, lýðheilsu og mataröryggis. Það er gott að geta stuðst við svona rannsóknir, ég held að það sé mjög mikilvægt og fagna því að á það sé minnst í þessari tillögu.

Ég vona að þessi tillaga fái ágætisumfjöllun í nefndinni og bæði sjónarmiðin komi fram og það verði ekki síst leitað til þeirra sem hafa haft á boðstólum gjaldfrjálsar skólamáltíðir um nokkurn tíma og geta miðlað af sinni reynslu. Það er gott að hér sé einmitt rætt um mikilvægi þess að við vinnum gegn því að börn séu á síðari árum að glíma við offitu, sem er orðið mjög stórt vandamál bara almennt í hinum vestræna heimi. Þess vegna er mikilvægt að næringarþátturinn sé svo sannarlega hafður að leiðarljósi í þessum máltíðum. Ég segi bara að ég óska þess að það verði málefnalegar og góðar umræður um þessa tillögu sem er í alla staði athyglisverð og ég óska flutningsmönnum til hamingju með að koma með þetta hér í þingið vegna þess að þetta hefur lítið verið rætt hér.