154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu um að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna heildstæða stefnu um daglegar, gjaldfrjálsar, næringarríkar skólamáltíðir og umgjörð þeirra. Ég ætla að lýsa mig algerlega ósammála þessari þingsályktunartillögu af nokkrum ástæðum. Fyrir það fyrsta þá held ég að þetta sé fyrst og fremst hlutverk sveitarfélaga, þ.e. sveitarfélög reka grunnskóla og leikskóla í þessu landi og við eigum að treysta þeim fyrir því verkefni. Ég veit ekki betur en að skólar og sveitarfélög séu almennt að reyna að vinna mikið með næringargildið og mörg sveitarfélög hafa farið inn í verkefni landlæknis um heilsueflandi samfélög og heilsueflandi skóla. Ég hef reynslu af því, sveitarfélagið þar sem ég var lengi í sveitarstjórn, Mosfellsbær, var með fyrstu sveitarfélögunum sem gengu inn í þau verkefni og það var mjög mikilvægt og mjög gott. Í því fólst mikil fræðsla til þeirra sem störfuðu í mötuneytunum og ekki síður þeirra sem störfuðu í íþróttahúsunum og svona, að taka í gegn hvað er á boðstólum fyrir börnin okkar.

En mér finnst það líka frumhlutverk foreldra að fæða og klæða börnin sín og ég held að ríkið eigi ekki að stíga inn á það svið nema í þeim tilfellum þar sem foreldrar eiga erfitt með að fæða og klæða börnin sín. Og þá eigum við að vera með öryggisnet og við eigum að tryggja það að öll börn fái fæði og klæði og nauðsynlegan aðbúnað. Í þeim tilfellum erum við með umtalsvert bótakerfi í dag eða millifærslukerfi, hvort sem það er í formi barnabóta, húsnæðisbóta eða slíks. Svo er það nú þannig að sveitarfélögin eru í mörgum tilfellum að greiða gjaldið fyrir mötuneytið fyrir þau börn þar sem foreldrar hafa af einhverjum ástæðum ekki greitt það.

Ég minnist þess þegar ég var í sveitarstjórn að ég tók þetta reglulega upp og hef rætt við kennara, sem eru auðvitað lykilfólkið okkar í því að huga að því hvernig börnin okkar hafa það og þau eru oft fljót að greina það ef eitthvað bjátar á. Ég vil bara að skólar sjái til þess að öll þau börn sem vilja borða í mötuneytum fái aðgengi að þeim. Og auðvitað er það eðlilegt að foreldrar greiði fyrir það, en ef það reynist erfitt af einhverjum ástæðum þá eru þetta umtalsvert lágir fjármunir sem um er að ræða og skipta ekki sköpum í rekstri sveitarfélaga eða rekstri viðkomandi skóla. Það er töluvert mikil niðurgreiðsla á skólamat í dag. Ég reyndi að fletta því upp á netinu og ef ég reikna þetta rétt er máltíðin að kosta einhvers staðar á bilinu 600–800 kr. Ég held meira að segja að 800 kr. hafi verið það sem ég sá dýrast, það var í Seltjarnarnesbæ og 600 kr. hér í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum, einhverjir eru jafnvel ódýrari. Það verður bara að segjast eins og er að þú færð ekkert mjög góðan mat fyrir þessar upphæðir þó að þú farir út í Bónus að kaupa rúnnstykki eða samlokur eða hvað það er. Það kostar örugglega meira en þetta. En eins og ég segi, mér finnst að foreldrar eigi að sinna þessu hlutverki.

Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að foreldrar séu að borga fyrir þessa þjónustu því að með því gera þeir líka meiri kröfur. Ég hef kvartað yfir því að við ræðum of lítið um málefni skóla hérna og ég kvarta yfir því að samfélagið sem slíkt hafi of litlar skoðanir á grunnskólanum og því sem á að vera að gerast inni í grunnskólunum sem er menntun barnanna okkar. En eitt af því sem er einkennandi fyrir starf í foreldrafélögum, eða var það alla vega þegar ég var á þeim vettvangi og var lengi í stjórn Heimilis og skóla og sat líka oft á aðalfundi foreldrafélaga skólum barnanna minna, er að foreldrar hafa skoðanir á mötuneytinu. Það var það sem var fyrst og fremst til umræðu en ofboðslega lítið um að foreldrar væru að hafa skoðun á því hvaða lestrarkennsluaðferðum væri verið að beita, hvaða bók væri verið að nota í stærðfræðinni eða öðrum þáttum, sem ég held að sé mun veigameira mál. Þannig að ég held að það sé einmitt mikilvægt að foreldrar séu að greiða fyrir þessa þjónustu því að með því gera þeir líka ákveðnar kröfur.

En að þessu sögðu ætla ég að segja að þetta er nú með bestu greinargerðum sem ég hef lesið með þingmannamálum. Ég get verið mjög sammála eiginlega nánast í öllu sem fram kemur í þessari greinargerð. Hún er rosalega vel unnin, hún tekur á mörgum þáttum sem ég held að sé mjög auðvelt að sammælast um. Og talandi um það hversu mikilvægt er að næringin sé hluti af samverutímanum og fræðslutímanum; ég held að það sé ofboðslega mikilvægt. Ég tók oft þátt í umræðu um slíkt í mínum skóla og því að það virðist vera allt of mikill asi oft. Það er ekki gott að börn upplifi það að máltíðin sé alltaf undir einhverri pressu, sé í háværum matsal þar sem allt glymur og stressið er mikið. Þannig að það væri gott ef skólar gætu komið því við að gera þetta með rólegri hætti, taka þetta frekar sem hluta af fræðslustarfinu. Það eru endalausir möguleikar að kenna börnum, hvort sem það er varðandi næringarfræði, mögulega stærðfræði eða sögu og menningu. Tækifærin eru mjög mörg.

Ég ætla líka að taka undir þessi sjónarmið varðandi heilbrigði og næringu, innihaldið. Offita er vandamál sem við horfum fram á og við þurfum að leysa það. Hluti af því er auðvitað fræðsla og bara um umgengni okkar við mat og næringu. Sjálfbærniviðmiðin get ég líka alveg tekið undir, þau geta verið mjög mikilvæg. Ég ætla því að hrósa þessari greinargerð þó að ég sé algerlega ósammála málinu. Það er á þeim forsendum að mér finnst það ekki vera hlutverk menntamálaráðherra að stíga inn á þetta svið. Ég held að sveitarfélögin séu að gera þetta vel og það er hægt að hvetja þau áfram í þeim efnum.

Ég sé enga sérstaka ástæðu fyrir því að vera hér með einhverja stefnu um að allar máltíðir í skólum séu gjaldfrjálsar. Ég sé hér að það er svoleiðis í Finnlandi og ég man að á sínum tíma kynnti ég mér það svolítið. Margir skólar hafa tekið það upp t.d. að bjóða upp á frían hafragraut á morgnana og ef ég man rétt þá var það eitt af því sem var svolítið tekið upp frá Finnlandi eftir að Finnar lentu í sinni kreppu, vegna þess hversu mikilvægt þeir töldu það vera. Ég veit ekki betur en það hafi almennt gengið vel og ég lýsi mig ekki andsnúna því. Ef sveitarfélög vilja svo fara þá leið að hafa máltíðir í skólum gjaldfrjálsar þá er það bara fínt. Þá er það bara ákvörðun þess stjórnsýslustigs eða sveitarstjórnarinnar sjálfrar að forgangsraða fjármunum sveitarfélagsins með þeim hætti og ég hef ekkert út á það að setja. Það verður hvert sveitarfélag að meta fyrir sig eftir aðstæðum og forgangsröðun hjá sér en ég held að við hér á þinginu ættum ekki að skipta okkur af því.