154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

69. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni fyrir prýðisgóða ræðu og fyrir að leiðrétta þá hvimleiðu villu sem er hér í þingskjölum um að hlutfall íbúa sem eru af erlendu bergi brotnir sé 9%, það er ekki rétt. Það eru, eins og hv. þingmaður sagði, u.þ.b. 25% og rúmlega það. Þannig að þetta verður leiðrétt í þingskjölum. Ég kom nú aðallega upp í pontu til þess að ítreka það, og þakka hv. þingmanni aftur fyrir prýðisgóða ræðu, að það eru tækifæri í því, einmitt eins og hv. þingmaður nefndi, þegar t.d. eru breytingar á stofnunum og annað slíkt að horfa til landsbyggðarinnar. Við eigum að gera það og stuðla að því að störf sem krefjast háskólamenntunar séu einnig höfð í huga þegar við erum að hugsa um þessi mál vegna þess að það er mjög lítið um að slík störf séu í boði frá hinu opinbera á landsbyggðinni. Það er hagur okkar allra að styrkja landsbyggðina og þetta er liður í því. Og af því að þetta snýr sérstaklega að Suðurnesjum og Reykjanesbæ þá hefur það því miður verið raunin að mjög lítið hefur verið um það að störf af þessu tagi hafi verið flutt til Suðurnesja eða til Reykjanesbæjar, þannig að því sé haldið til haga. Enn og aftur, ég þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál og vona að nefndarmenn skoði það frá öllum hliðum. Ég held að þarna sé tækifæri sem sé mikilvægt fyrir Suðurnesin og vona að þetta mál fái jákvæðar undirtektir innan nefndarinnar.