154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

uppbygging Suðurfjarðavegar.

82. mál
[15:58]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Margt af því sem við tökum þátt í hér í þessum sal mætti flokka undir pot og lobbýisma. Það er t.d. alveg sérstök stétt fólks í Washington sem starfar við það eingöngu að ota og pota og það segir sig sjálft að þeir sem næstir standa valdinu hafa mest áhrif. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það sé í rauninni afar óheppilegt að jafn stórt og víðfeðmt kjördæmi og Norðausturkjördæmi skuli ekki eiga sæti við ríkisstjórnarborðið og hafa þar með þau auknu áhrif sem slíku fylgir? Minni ég nú bara á hv. fyrrum þingmann kjördæmisins, Halldór Blöndal, sem hafði gríðarleg áhrif á mál á borð við það sem gerðist milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og ýmislegt fleira. Kristján Möller, fyrrverandi hv. þingmaður, er annað dæmi. Værum við ekki mun betur sett í norðaustrinu varðandi þessi áherslumál ef menn hefðu séð sóma sinn í því að kjördæmi sem leggur rúmlega fjórðung til ríkissjóðs í tekjum sínum af ýmsum atvinnugreinum, ætti rödd og það sterka og áhrifamikla rödd við ríkisstjórnarborðið? Hefði hv. þingmaður getað hugsað sér að taka þar sæti sjálfur og persónulega? [Hlátur í þingsal.]