154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

85. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnunum fyrir góð innlegg. Ég tek heils hugar undir áskorun um að fleiri láti að sér kveða í stjórnmálum. Það er auðvitað bara borgaraleg skylda að taka þátt í stjórnmálastarfi og þar lærir maður svo ótal margt, ekki síst að máta skoðanir sínar við aðra og komast að málamiðlun sem er bara mjög þarft verkfæri til að hafa í mannlegu samfélagi. Ég geri sömuleiðis enga athugasemd við það að málið verði tekið til umfjöllunar og taki einhverjum breytingum í meðförum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þó að ég sé kannski ekki eins mikill stuðningsmaður ríkisstyrkja eins og hv. þm. Magnús Árni Skjöld þá greindi ég frá því hér áðan að upphaflega markmiðið mitt var að afnema ríkisstyrki, en svo hvarf ég aðeins frá þeirri hugmynd sem ég hafði í upphafi þannig að við getum komist að einhverju samkomulagi hvað það varðar. Hv. þingmaður fór hérna yfir hlutverk stjórnmálaflokka og grundvöllurinn að því að stjórnmálaflokkar geti sinnt því starfi sínu er auðvitað sá að þar fari fram einhver virk starfsemi og þjóðmálaumræða. Megininntak þessa frumvarps er að þessir ríkisstyrkir, eins háir og gríðarlega miklir og þeir eru, séu í því formi lamandi. Annars þakka ég bara aftur fyrir góða umræðu.