154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

[15:10]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka svar mitt um það að við ætlum að halda áfram að fylgjast með. Ég veit að hv. þingmaður og hennar flokkur er meira og minna sammála því markmiði að koma til móts við þá sem þurfa á stuðningi að halda á húsnæðismarkaði og við náum þannig að jafna og búa til réttlátari húsnæðismarkað. Leiðir hv. þingmanns og hennar flokks hafa hins vegar gjarnan verið að hækka bætur endalaust, sem er eftirspurnarhvetjandi, sem býr til meiri þörf fyrir enn meiri bætur og er í raun og veru ekki lausnin á vandamálinu. Það sem við erum að reyna að gera er að auka framboðið á húsnæði, reyna t.d. að setja fjármuni inn þar sem fólkið sjálft getur þá vonandi samið um hærri laun, sem þýðir að það þarf minni bætur en getur staðið í sjálfbæru samfélagi. Afleiðingin verður hins vegar sú sama: (Forseti hringir.) Fólk mun ráða við þá greiðslubyrði sem það er með en þarf ekki að lifa á bótum (Forseti hringir.) og bótahugsun frá ríkinu.