154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

samningar við sjúkraþjálfara.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að koma inn á málefni sjúkraþjálfara og í raun endurhæfingar vegna þess við horfum á sjúkraþjálfara sem mjög mikilvægan þátt í endurhæfingu. Við höfum gert fjölmargt á því sviði að efla endurhæfingu. Sjúkraþjálfarar gegna mjög mikilvægu hlutverki á mjög víðtæku sviði endurhæfingar. Þegar við erum að jafna okkur eftir erfiðar aðgerðir sem kalla á mikil inngrip inni á spítala þá taka sjúkraþjálfara við í uppbyggingunni. Þegar við erum að undirbúa mikilvægar aðgerðir þá spila sjúkraþjálfarar stórt hlutverk. Það sem er búið að gera undanfarið, sem er undanfari þeirra samninga sem nú eiga sér stað milli Sjúkratrygginga og sjúkraþjálfara, varðar svokallaðar sex skipta tilvísanir sem voru nauðsynlegar, það er búið að fella það úr gildi. Nú geta einstaklingar sem þurfa á þjónustu sjúkraþjálfara að halda leitað beint til sjúkraþjálfara og þetta er auðvitað niðurgreitt, en þetta er svipað og var með sérgreinalæknasamninginn, að þá er hægt að rukka aukalega. Það skiptir máli að horfa inn í það og við erum að reyna að ná samningi við sjúkraþjálfara um þann þátt þannig að við nýtum okkur þessa mikilvægu þjónustu. Við höfum líka horft til framlags sjúkraþjálfara í endurhæfingunni yfir allt sviðið, á milli heilbrigðisendurhæfingar og starfsendurhæfingar, og til svona fjölþættari nálgunar og samspils við aðra þætti af því að hv. þingmaður kom hérna inn á almenna líðan. En þessar samningaviðræður milli Sjúkratrygginga og sjúkraþjálfara standa yfir.