154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

áhrif breytinga á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni á regluverk á Íslandi.

[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir að koma inn á þessi mál og þessa reglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem við erum auðvitað aðilar að, getum við sagt, eins og aðrar þjóðir. Síðan kom hv. þingmaður inn á það sem er, má segja, í vinnslu sem er einhvers konar sameiginleg sýn á það hvernig við tökumst á við faraldra inn í framtíðina, sem hv. þingmaður vísaði til, með leyfi forseta, Pandemic Treaty, einhvers konar samkomulag um það hvernig við horfum til faraldra í framtíðinni. Það er á vinnslustigi og það sem ég veit um þann sáttmála er að það verður alltaf val hvernig við tökumst á við þær kringumstæður sem koma upp og þá út frá þeim lögum og reglum og stjórnarskrá sem við fylgjum. (Gripið fram í.) Já, þá er ég kominn að alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni. Ég hef spurt þessara spurninga og það er verið að taka saman fyrir mig greiningu á þessu. Ég get hins vegar fullyrt varðandi það sem hefur kannski verið í umræðunni um að stjórn heilbrigðismála sé með einhverju marki með þessari reglugerð komin yfir til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á þeim ákvörðunum sem við tökum hér í íslensku heilbrigðiskerfi, að það er það ekki þannig. Það er ekki þannig. Stefnumótunin á sér ekki stað þar. Stefnumótunin á sér stað hér og við fylgjum henni og við fylgjum íslenskri stjórnarskrá og við fylgjum íslenskum lögum og við tökum ákvarðanir hér á Alþingi um það sem við viljum sjá í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er staðfest og ég hef spurt eftir því.

Varðandi það hvort einhverjir fyrirvarar hafa verið gerðir þá held ég að það hafi ekki verið þörf á að gera neina sérstaka fyrirvara vegna þess að öll ákvarðanataka er hér hjá þinginu, hinu íslenska Alþingi. Það stendur alveg fast.