154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

búseta í ósamþykktu húsnæði og brunavarnaaðgerðir.

[15:40]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að taka þetta upp. Það verður að segjast alveg eins og er að maður hrekkur bara við reglulega, því miður, þegar maður heyrir í fréttum af brunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Því miður reynist það allt of oft vera í atvinnuhúsnæði þar sem fólk býr í einhvers konar óleyfishúsnæði.

Eftir hina hörmulegu atburði á Bræðraborgarstíg var settur á laggirnar starfshópur af þáverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, nú barnamálaráðherra, sem fór og kortlagði hvað væri hægt að gera betur. Það voru fjölmargar aðgerðir. Í kjölfarið á því fóru nokkrar þeirra til framkvæmda, m.a. hjá HMS varðandi fræðslu og aðra þætti. Hluti af þessum hugmyndum fóru í tvo starfshópa. Annar þeirra skilaði síðan tillögum til mín. Það byggði nú reyndar m.a. á skýrslu sem kom út í apríl 2022 þar sem í ljós kom að það voru um 2.200–2.500 manns, minnir mig, sem bjuggu í slíku húsnæði, sem var reyndar í skárra ástandi heldur en menn óttuðust. Starfshópurinn var með fjórar tillögur til skoðunar. Það er frumvarp sem ég er búinn að fara með í gegnum ríkisstjórn og ég vona að það komi hingað inn í þingið á næstu dögum, í dag eða á morgun, og ég geti farið yfir það. Það mun taka á því að heimila skráningu í svona húsnæði, þá sambærilegt við málið sem hv. þingmaður nefndi varðandi flóttamenn, þannig að það væru á leiðinni sambærilegar heimildir. Í þessu frumvarpi verða líka heimildir til handa slökkviliðinu og byggingarfulltrúa að fara inn og skoða og takast á við þegar svona hlutir eru. Ég vil segja að nú fær löggjafinn tækifæri til að grípa hratt inn í. Framkvæmdarvaldið er búið að undirbúa þessa vinnu.

En auðvitað er ábyrgðin hjá eigendum þessara húsa og ég vil nota þetta tækifærið hérna (Forseti hringir.) og stela tíu sekúndum, herra forseti, og skora á það fólk sem á slíkt húsnæði að koma því í lag. (Forseti hringir.) Þetta getur ekki gengið svona áfram.