154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[15:46]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Niðurskurður búfjár fyrir forgöngu hins opinbera til að útrýma búfjársjúkdómum felur í sér inngrip í eignir og atvinnu viðkomandi bænda og er því skerðing á stjórnarskrárvörðum réttindum. Til slíkra skerðinga þarf auðvitað að koma til skýr lagaheimild og fullar bætur jafnframt. Það er ljóst að kafli reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, um bótaþáttinn, er úreltur og þarfnast endurskoðunar. Þá verður að greina á milli þess annars vegar hvað er stjórnvaldsákvörðun um niðurskurð og hins vegar úrlausn um bætur. Réttarstaða eigenda búfjársins þarf að vera skýr þegar bændur binda, a.m.k. tímabundið, enda á tiltekna atvinnustarfsemi sína með því að fella bústofn sinn vegna fyrirmæla frá ríkinu. Það hreinlega gengur ekki upp út frá þessu, herra forseti, að reynt sé að þvinga bændur inn í samning þar sem þeir undirgangast tilteknar bótagreiðslur og taka á sig ákveðnar verkskyldur umfram lög sem þeir geta ekki síðar, í samræmi við fyrirliggjandi fordæmi í dómum og úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta, fengið endurskoðun á eða sótt frekari bætur. Stjórnvaldsfyrirmæli og stjórnsýsluframkvæmd verða að taka mið af þessu.

Í þessari reglugerð eru tilteknir tveir meginbótaflokkar, annars vegar förgunarbætur og hins vegar afurðatjónsbætur. Í reglugerðinni eru fastsettar viðmiðanir um hvernig fjárhæðir þessara bóta skulu fundnar út og þar með eru bæturnar í raun staðlaðar. Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að það verklag sé í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 20. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem kveður á um að bætur ríkissjóðs skulu svara til verðgildis afurða og rekstrartaps sem sannanlega leiðir af eyðingu dýranna. Það verður að horfa á einstök tilvik og bæta það tjón sem raunverulega verður.

Eins og þessum málum er nú háttað er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að öll stjórnsýsluframkvæmdin undanfarin ár við ákvörðun bóta til þeirra sem þurfa að sæta förgun sé óboðleg. Bændur eiga ekki að þurfa að standa í stappi við ráðuneytið mánuðum og jafnvel árum saman við að fá úrlausn sinna mála. Þessu verður að breyta. Ég árétta því við hæstv. matvælaráðherra mikilvægi þess að breytingar verði gerðar á stjórnvaldsfyrirmælum og stjórnsýsluframkvæmd er lúta að niðurskurði búfjár vegna riðuveiki. Í ljósi nýrra aðstæðna og verklags — þá vísa ég til heimildar til að skera einungis niður hluta fjárstofns til þess að mögulegt sé að forða frá niðurskurði þeim hluta sem ber verndandi arfgerð gegn riðu — verður að hugsa hlutina upp á nýtt. Hvaða kvaðir og skyldur er hægt að setja á búfjáreiganda í slíkum tilvikum? Hversu umfangsmikil á hreinsunin að vera? Með hvaða hætti er búfjáreiganda heimilt að bæta við búfjárstofninn? Þessum álitaefnum, herra forseti, verður að svara.

Þá er líka löngu tímabært að ákvæði reglugerðar sem mæla fyrir um stærðir og viðmiðanir verði teknar til endurskoðunar með það fyrir augum að réttarstaða bænda verði betur tryggð og öll tvímæli tekin af um hvað teljast fullar bætur fyrir það tjón sem hvert býli verður fyrir. Þetta geta verið atriði sem varða gjalddaga bótanna og til hvaða efnisþátta skriflegur uppgjörssamningur getur tekið. Þetta lýtur að lógun sauðfjárins og fjárleysi, greiðslu bóta og svo hreinsun. Þá verður jafnframt að skýra betur ákvæði um hreinsun og kostnað við hreinsun, þ.m.t. vinnuframlag búfjáreigenda sem styr hefur staðið um.

Aðalatriðið er, herra forseti, að horft verði á hvert tilvik og aðstæður hverju sinni þannig að fullar bætur verði greiddar fyrir tjón sem raunverulega hefur hlotist, eins og lög kveða á um. (Forseti hringir.) Svörin um þessi atriði hafa hingað til verið óljós frá hæstv. matvælaráðherra en ég bind vonir við það að ráðherra breyti nú um kúrs og ráðist í þessar nauðsynlegu úrbætur.