154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Vopnaburður lögreglu.

[14:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við viljum öll tryggja frelsi og öryggi almennings á Íslandi. Við viljum öll að lögreglan hafi þau tæki, þann mannafla og öll þau úrræði sem hún þarf til að sinna sínu starfi og tryggja öryggi sitt og annarra um leið. Með einhliða ákvörðun þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra í desember síðastliðnum var almennri lögreglu á Íslandi veitt heimild til að bera rafbyssur og var í kjölfarið ráðist í nokkuð umfangsmikil kaup á slíkum vopnum og fjármunum varið í þjálfun í notkun þeirra. Í reglum sem settar hafa verið um notkun rafbyssa segir að lögreglu sé heimilt að nota slík vopn þegar heimilt er að nota úðavopn eða kylfu en talið er að úðavopn eða kylfa eða aðrar vægari aðgerðir muni ekki nægja til að yfirbuga aðilann eða skilyrði um notkun skotvopna eru ekki til staðar.

Fyrrverandi hæstv. ráðherra hefur rökstutt rafbyssuvæðinguna með tilvísunum í rannsóknir sem sýni fram á að rafbyssur fækki óhöppum og slysum á bæði fólki og lögreglumönnum. Já, í samanburði við skotvopn. Í samanburði við hefðbundið skotvopn þar sem byssukúlu er skotið að einstaklingi eru rafbyssur augljóslega öruggari kostur og þetta styðja þær rannsóknir sem vísað er til. En lögreglan á Íslandi ber almennt ekki byssur eða hefur ekki gert það hingað til en nú stendur til að vopna hana rafbyssum.

Í gær voru fluttar fréttir af auknum vopnaburði í fangelsum landsins og úti í samfélaginu. Fullyrt hefur verið á fyrri stigum að ofbeldi hafi aukist í samfélaginu þótt ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti. Hins vegar virðist ljóst að vopnaburður, einkum hnífaburður, hafi aukist á síðustu misserum. Er þar fyrst og fremst um að ræða ákveðna og afmarkaða hópa og virðast umræddir hópar einkum skipaðir ungum mönnum, ungmennum sem samkvæmt lagalegri skilgreiningu teljast jafnvel börn.

Forseti. Er ekki undarlegt að eina ráðið sem ríkisstjórnin sér til að bregðast við auknum vopnaburði og beitingu vopna á meðal barna og ungmenna hér á landi sé að vopna lögregluna? Meira ofbeldi en ekki minna. En hvaða afleiðingar hefur það? Þar sem rafbyssur hafa verið teknar í notkun hefur það vanalega verið gert með það fyrir augum að þær séu skaðminni valdbeitingarúrræði en skotvopn. Matið byggir á því að rafbyssur séu öruggari en að miða á fólk skotvopni og setja það fyrir víst í lífshættu. Samkvæmt rannsóknum eru lögregluþjónar sem bera rafbyssur hins vegar helmingi líklegri til þess að beita valdi í störfum sínum en lögreglumenn sem bera hvorki skotvopn né rafbyssur. Einnig hefur verið sýnt fram á að líklegra sé að ráðist sé á þá. Aðrir lögregluþjónar sem voru með lögregluþjónum sem bera rafbyssur á vakt voru einnig líklegri til þess að beita valdi í störfum sínum en ella.

Forseti. Í svörum fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um kaup á vopnum fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins kemur fram að 165 milljónum úr ríkissjóði hafi verið eytt í skotvopn fyrir fundinn og þau kaup rökstudd með því að þörf hafi verið á sérstökum viðbúnaði vegna fundarins. Skotvopn. Engu að síður segir þar að ekki standi til að selja vopnin aftur. Hvernig til stendur að nota þessi vopn áfram er hins vegar með öllu ósvarað. Stendur til að ganga skrefinu lengra og vopna íslensku lögregluna skotvopnum umfram það sem nú er?

Samanburðarrannsókn á notkun lögreglu á skotvopnum milli Noregs og Svíþjóðar bendir til þess að minni vopnaburður og strangari reglur um beitingu skotvopna í Noregi, kerfi líkara því sem gildir hér á landi, séu ástæður þess að norskir lögregluþjónar beiti sjaldnar skotvopnum og að minna sé um slys á bæði lögregluþjónum og borgurum við skyldustörf lögreglu. Samhliða því að minna er um vopnaburð og strangar reglur um hann er áhersla lögð á þjálfun í því að leysa úr hættulegum atvikum án vopnabeitingar.

Við erum öll sammála um markmiðin, að auka öryggi bæði almennra borgara í landinu og öryggi lögregluþjóna við störf sín, öryggi sem er forsenda sameiginlegs frelsis, lýðræðis og velsældar okkar allra. Með því að vopnavæða lögreglu að vanathuguðu máli án nauðsynlegs samráðs og með óskýran laga- og regluramma óttast ég hins vegar að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. dómsmálaráðherra þessarar ríkisstjórnar séu að snúa okkur í öfuga átt. Nú hafa hins vegar orðið ráðherraskipti tiltölulega nýlega og þótti mér tilefni til að beina eftirfarandi spurningum til nýs hæstv. dómsmálaráðherra:

Er hæstv. ráðherra sammála forvera sínum í embætti um að slík þörf sé á að vopnavæða lögregluna? Hyggst hæstv. ráðherra halda öllum þeim vopnum sem forveri hennar keypti? Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af stigmögnun vopnaburðar á Íslandi í kjölfar þessarar umbyltingar lögreglustarfa á Íslandi? Hyggst hæstv. ráðherra halda áfram á sömu vegferð með aukinni hörku og hugsanlega frekari vopnavæðingu lögreglunnar? Og síðast en ekki síst spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Kemur til greina að stíga skref til baka og endurhugsa þessa stefnu?