154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Vopnaburður lögreglu.

[14:23]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höfum öll orðið vör við aukna hörku og breyttar aðstæður í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðasta árið hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir sitt besta með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér en við finnum samt sem áður að landsmenn eru óttaslegnir varðandi þróun skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi. Með stöðugri þróun glæpasamtaka hefur reynst sífellt erfiðara að eiga við þau og stöðva uppsveiflu þeirra hérlendis. Allir fasar löggæslunnar eru að verða komnir að þolmörkum og þegar við ræðum þessi mál verðum við að taka inn í umræðuna starfsöryggi og viðbragðsgetu lögreglumanna sem leggja líf sitt að veði hvern einasta dag til að tryggja öryggi landsmanna og halda uppi lögum og reglu hér á landi. Lögreglan hefur kallað eftir viðunandi búnaði til að geta sinnt störfum sínum og það lýtur m.a. að takmörkuðu öryggi, hærri slysatíðni og auknu álagi hjá lögreglu með auknum vopnaburði í samfélaginu og aukinni hörku í ofbeldisbrotum. Að senda lögreglu á vettvang með úðavopn og kylfu þar sem skotvopni hefur verið beitt eða hótun um beitingu þess sjá allir að er óboðlegt, bæði gagnvart viðbragðsaðilum og þolendum í viðkomandi máli. Öryggi almennings og lögreglumanna verður að vera í forgangi í öllum ákvarðanatökum.