154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Vopnaburður lögreglu.

[14:41]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við skulum gæta þess að vera ekki haldin svo mikilli staðfestingarhlutdrægni að hafa þá tilhneigingu að hygla undir og leita markvisst að þeim upplýsingum sem staðfesta eða styrkja ákveðna draumsýn um samfélagið sem á sér hreinlega ekki stoð í veruleikanum. Að halda því fram að orsökin fyrir aukinni hörku og aukinni skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi sé til komin vegna þess að lögreglan sé í auknum mæli vopnuð er vægast sagt undarlegur málflutningur. Það er vegna aukinnar skipulagðrar glæpastarfsemi og aukinnar hörku í ofbeldisbrotum sem við þurfum að hafa lögreglu sem er viðunandi búnaði búin til að tryggja öryggi almennings. Hvaða öryggisstig og þjónustu viljum við og hvaða væntingar hefur almenningur til þess að lögreglan geti brugðist við þeim aðstæðum sem koma upp í samfélaginu? Almenningur býst við því að lögreglan sé þannig tækjum búin að hún geti brugðist við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma hverju sinni og í ljósi aukins vopnaburðar og aukningar á fjölda skráðra tilfella þar sem vopnum er beitt er nauðsynlegt að lögreglunni sé gert kleift að bregðast við með öruggum hætti við slíkum aðstæðum.

Það er öllum ljóst að styðja þarf við löggæsluna í sínum viðbrögðum í takt við nýjan veruleika. Við treystum á lögregluna þegar eitthvað kemur upp á og hún þarf að geta unað við ásættanlegan búnað, þjálfun og mannafla til að takast á við þá auknu hörku sem er að myndast í samfélaginu. Notkun vopna, hvort sem það eru rafvarnarvopn eða skotvopn, krefst þjálfunar og við eigum að gera það sem til þarf svo að tryggja megi öryggi lögreglumanna við störf sín og gera þeim kleift að tryggja með viðunandi hætti öryggi almennings.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að benda á og minna á að að baki hverjum einasta lögreglumanni er fjölskylda. Við skulum ekki gleyma því.