154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Vopnaburður lögreglu.

[14:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Það er mikilvægt að umræða um vopnaburð lögreglu fari fram á hinum pólitíska vettvangi. Svona ákvarðanir eru þess eðlis og ég er reyndar á því að umræða um löggæslu eigi raunar öll að fá meira rými hér á Alþingi. Það er grundvallarhlutverk ríkisins að tryggja öryggi fólksins í landinu og mannafli og mannauður er sterkasta svarið í því samhengi. Í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá mér kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi greint þörf á mannafla í tengslum við rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi. Þar kemur fram að fjölga þurfi stöðugildum. Þar kemur fram að þörf sé á auknu fjármagni til nauðsynlegra tækja og hugbúnaðarkaupa. Þar kemur fram að áhersla verði að vera aukin á alþjóðlegt samstarf. Þetta er einfaldlega hluti af því að löggæsla á Íslandi fái að þróast í samræmi við breyttar þarfir og breyttan veruleika. Vopnaburður virðist vera að færast í aukana hjá ungmennum og við sjáum merki um breytt landslag afbrota. Það þarf að horfa heildstætt á málin og heildstætt á hvernig starfsumhverfi lögreglunnar er. Samkvæmt tölum frá Eurostat fyrir 2020 voru að meðaltali 333 lögreglumenn á hverja 100.000 íbúa í Evrópu. Hlutfallið hér var 176. Svona samanburður er erfiður en ég leyfi mér að nefna þessar tölur. Árið 2013 var heildarfjöldi lögreglumanna 8,1 á hverja 10.000 ferðamenn hér á landinu en tíu árum seinna var hlutfallið komið niður í 4,6. Hlutfallið fór lækkandi.

Forseti. Fangelsismálin eru auðvitað samofin löggæslu og þar eru biðlistar einkennandi. Ég lagði fram fyrirspurn sem sýndi að í lok árs 2022 voru 279 karlmenn á biðlista eftir afplánun í fangelsi. Meðalbiðtíminn hafði verið um tvö ár. Það er óviðunandi staða fyrir samfélagið, fyrir þá sem í hlut eiga (Forseti hringir.) og fyrir lögregluna. Notkun á rafbyssum er jú vissulega eitt samtal en stóra myndin er að þegar við ræðum um innviði (Forseti hringir.) þá þarf að muna það að löggæsla og fangelsismál falla þar undir og stefnumótun og fjármögnun þarf að endurspegla það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)